145. löggjafarþing — 44. fundur,  30. nóv. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

157. mál
[17:13]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir þessar góðu og mikilvægu upplýsingar. Það mun að sjálfsögðu ekki standa á okkur að samþykkja þetta góða mál. Ég hafði einmitt tekið eftir þessari umfjöllun um þýðingu samningsins í nefndarálitinu. Það er mikilvægt að undinn sé að því bráður bugur í Stjórnarráðinu að finna þar bót á og leiðrétta þá ágalla sem kunna að vera fyrir hendi. En ég held að við ættum að sameinast um það hér við afgreiðslu þessa máls að einsetja okkur að fá að sjá frumvörp til innleiðingar ekki seinna en á haustþingi á næsta ári. Það ætti að gefa góðan tíma til þess að ljúka við breytingar í þýðingu, ganga frá fullgildingu og vinna frumvarp til breytingar í framhaldinu.