145. löggjafarþing — 44. fundur,  30. nóv. 2015.

peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

139. mál
[17:16]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um breytingu á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa frá innanríkisráðuneytinu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Samtökum fjármálafyrirtækja. Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 64/2006, með síðari breytingum. Í frumvarpinu er lagt til að gerð verði ríkari krafa um áreiðanleikakannanir af hálfu tilkynningarskyldra aðila og lýtur meginefni frumvarpsins að því að greina raunverulegan eiganda líkt og nánar er lýst í athugasemdum við það.

Í athugasemdum sem bárust nefndinni og á fundum um málið komu fram ábendingar sem hún taldi rétt að taka til nánari skoðunar. Leggur nefndin til breytingar til að koma til móts við þær. Þær breytingar eru að í 3. gr. eru lagðar til tvær breytingar á 4. gr. laganna, í a-lið er lagt til að tilkynningarskyldum aðilum verði gert skylt að gera áreiðanleikakönnun þegar um er að ræða millifærslu fjármuna að fjárhæð 1.000 evrur eða meira eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í öðrum gjaldmiðlum. Í b-lið er lagt til að ný málsgrein bætist við 4. gr. laganna sem áréttar að færsla fjármuna með greiðslukortum falli utan gildissviðs laganna að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Í umsögn sem barst nefndinni er gerð athugasemd við a-lið 3. gr. um að áreiðanleikakönnun skuli fara fram við millifærslu fjármuna að fjárhæð 1.000 evrur eða meira. Telja umsagnaraðilar lengra gengið en alþjóðlegi framkvæmdahópurinn Financial Action Task Force, sem skammstafað er FATF, mælist til og því er nauðsynlegt að endurskoða orðalag ákvæðisins. Í tilmælum FATF er gert ráð fyrir að áreiðanleikakönnun sé sleppt þegar viðskiptavinur er í viðvarandi viðskiptasambandi við fjármálafyrirtæki en þá hafi áreiðanleikakönnun þegar farið fram. Umsagnaraðilar leggja því til að orðalagi a-liðar 3. gr. verði breytt. Nefndin féllst á þessi sjónarmið og gerir breytingartillögu þess efnis.

Þá leggur nefndin til að fjárhæð ákvæðisins verði breytt úr erlendum gjaldeyri yfir í íslenskar krónur sem er lögeyrir landsins þannig að í stað „1.000 evrur“ komi „150.000 kr.“

Til viðbótar hefur nefndinni borist athugasemd þess efnis að orðalag 2. mgr. 17. gr. laganna sé ekki nægjanlega skýrt um skyldur fjármálastofnunar til að afhenda gögn til peningaþvættisskrifstofu á grundvelli tilkynningar annarrar fjármálastofnunar. Nefndin telur rétt að tryggt verði að orðalagið sé skýrt og gerir tillögu um skýrara orðalag.

Þá ber að nefna að nefndinni barst ábending um tæknilegt atriði sem mun valda tvítekningu lokamálsliðar 6. gr. laganna ef 5. gr. frumvarpsins verður látin standa óbreytt. Er lagt til að það verði leiðrétt þannig að lokamálsliður frumvarpsgreinarinnar verði felldur brott.

Að lokum barst nefndinni ábending um úrelta lagatilvísun í 2. gr. laganna. Nánar tiltekið sé vísun c-liðar 1. mgr. þeirrar greinar til 23. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, úrelt þar sem ný lög um vátryggingastarfsemi, nr. 56/2010, hafi tekið gildi. Nefndin telur þörf á að breyta orðalagi ákvæðisins til að bregðast við þessari athugasemd.

Það sem er kannski aðalatriðið í þessu máli er að nefndin telur frumvarpið til þess fallið að koma til móts við athugasemdir FATF og þar með styrkja alþjóðlegar skuldbindingar á þessu sviði. Í ljósi þess leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem tilgreindar eru hér í nefndarálitinu og ég tel óþarfa að lesa upp.

Undir þetta rita sex meðlimir efnahags- og viðskiptanefndar, það eru Frosti Sigurjónsson, Brynjar Níelsson, Steingrímur J. Sigfússon, Össur Skarphéðinsson, Ásmundur Einar Daðason og Sigríður Á. Andersen.