145. löggjafarþing — 44. fundur,  30. nóv. 2015.

peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

139. mál
[17:30]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur átt sér stað um efni málsins og síðan svokallað aukaatriði sem fjallar um gjaldmiðil fjárhæða í íslenskum lögum. Af tillitssemi við þá sem þurfa að fara eftir lögunum og nota almennt íslenskar krónur í viðskiptum sínum hefði maður talið þægilegra að þurfa ekki að vera með annað augað á skráningu gjaldmiðilsins til að vita hvort maður er brotlegur eða ekki við íslensk lög. Það er eitt hagræðið sem við höfum af því að hafa hérna sameiginlegan gjaldmiðil eða þann sjálfstæða gjaldmiðil að lögin geta verið nokkuð skýr.

Það hefur komið dálítið til tals í máli eins hv. þingmanns, Vilhjálms Bjarnasonar, að honum þyki þetta skipta máli hvað varðar innri markaðinn, en í þessu tilfelli erum við að tala um tilmæli sem koma frá FATF, sem eiga rót sína að rekja ekki til innri markaðarins heldur til annarra ríkja sem ná langt út fyrir það og hafa marga aðra gjaldmiðla en evruna og hefur ekki truflað þá neitt að vera hér með lögeyrismynt sína í ákvæðum sínum.

Ég vildi bara rétt koma því að að ég tel að það sé ekki sérstakt vandamál eða sérstaklega hagfellt að nota erlenda gjaldmiðla í lögum. Það er náttúrlega til hagsbóta fyrir þá sem þurfa að fara eftir lögunum að þau séu skýr á hverjum tíma. Það er miklu minna ónæði fyrir þá sem í landinu búa af því, jafnvel þó að við á nokkurra ára fresti könnum það hvort tilefni sé til að skoða slík fjárhæðarmörk heldur en að fela öllum landsmönnum það allan daginn út og inn að fylgjast með því hvort þau séu innan eða utan við einhver fjárhæðarmörk með því að fylgjast með skráningu gengisins. (VilB: Það var engin spurning í þessu þannig að ég þarf ekki að svara.)