145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða dekkjakurl og bæta um betur frá síðustu umræðu um málið. Ég þakka öllum þingflokksformönnum fyrir að bregðast vel við og tryggja að allir þingflokkar styðji aðgerðir í þessu máli þar sem fulltrúar allra þingflokka eru á þingsályktunartillögu um bann við notkun dekkjakurls.

Mér finnst líka alveg við hæfi að koma því að undir þessum lið, störf þingsins, þegar vel er unnið þvert á flokka. Þar sem þingmannamál geta hins vegar tekið tíma að komast sína leið vonast ég til að hæstv. ráðherra hafi færi á að klára málið í samvinnu við Umhverfisstofnun en hlutverk Umhverfisstofnunar er einmitt að beita sér fyrir heilnæmu umhverfi og verndun. Í því sambandi vil ég benda á reglugerð um urðun úrgangs sem á sér stoð í lögum um meðferð úrgangs, nr. 55/2003, en í 8. gr. þeirrar reglugerðar er fjallað um úrgang sem óheimilt er að urða. Í d-lið reglugerðarinnar segir meðal annars að óheimilt sé að urða hjólbarða hvort sem um er að ræða heila eða kurlaða.

Rannsóknir hafa hingað til ekki kveðið óyggjandi á um það hversu skaðlegt þetta efni kann að vera, en í reglugerðinni segir enn fremur:

„Að því er varðar tilteknar tegundir hættulegra efna og spilliefna hefur verið sýnt fram á nauðsyn þess að vernda samfélagið og umhverfið gegn viðvarandi váhrifum til langframa. Til langframa merkir í þessu samhengi nokkur þúsund ár.“

Á sama tíma og jafn strangar reglur gilda um urðun á dekkjagúmmíi þar sem það er beinlínis bannað getur ekki verið eðlilegt að það megi dreifa þessu á leik- og íþróttavelli — og það í tonnum talið.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna