145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

störf þingsins.

[15:40]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla einnig að fjalla aðeins um störf stjórnarskrárnefndar eða öllu heldur allt fyrirkomulagið sem endurskoðun á stjórnarskrá er nú í. Það er gildandi bráðabirgðaákvæði í stjórnarskrá sem segir að hægt sé að breyta stjórnarskrá ef tveir þriðju þingmanna greiða atkvæði með breytingu en sömuleiðis ef 40% kosningarbærra manna á Íslandi greiða atkvæði með breytingunni. Við píratar greiddum atkvæði gegn þessum þröskuldi sumarið 2013 vegna þess að hann er afskaplega vondur og hann er lýðræðislega ótækur.

Eitt af því versta við hann að mínu mati er að hann býr til hagsmunaójafnvægi, hann býr til þannig ójafnvægi að sá sem er hlynntur breytingunum þarf að hvetja aðra á kjörstað, hann þarf að hjálpa til við að koma fólki á kjörstað. Sá sem vill ekki breytingar, sá sem vill halda í hlutina eins og þeir eru, þarf bara að gera lítið úr atkvæðagreiðslunni, hvetja fólk til að sitja heima, taka ekki þátt í þessari vitleysu o.s.frv.

Af þessum sökum er munur á atkvæðagreiðslu um einstaka mál og kosningum um fólk. Þetta þýðir að þegar um er að ræða fólk sem á að velja úr er kosningaþátttaka almennt meiri. Það er eðlilegt vegna þess að allar hliðar málsins hafa sameiginlega hagsmuni af því að koma sem flestum á kjörstað. Þess vegna er ekki hægt að búast við því að þátttaka í atkvæðagreiðslu um einstaka mál sé jafn mikil og í kosningum um fólk.

Nú hef ég ekki tíma til að fara mjög ítarlega yfir það sem er meira að þeim þröskuldi sem er að finna í núgildandi bráðabirgðaákvæði. Það er þó orðið ljóst að ekki er tími til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána samhliða forsetakosningunum og það er mjög alvarlegt mál. Það er ábyrgðarhluti þeirra sem þykjast standa af heilindum að baki vinnu um að breyta stjórnarskrá að þeir beri virðingu fyrir því að við þurfum að hafa þátttökuna sem mesta og það eru gríðarleg vonbrigði, í raun ótækt, að hætt verði við að halda atkvæðagreiðsluna samhliða forsetakosningum.

Ég vek athygli á því að meiri hluti þjóðarinnar hefur greitt atkvæði um það að hann vilji (Forseti hringir.) nýja stjórnarskrá og enn ríkari meiri hluti hefur krafist atkvæða sem við berum ábyrgð á að leiða í gegn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Efnisorð er vísa í ræðuna