145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

störf þingsins.

[15:47]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Virðulega afmælisbarn. Mig langar aðeins að ræða störf þingsins undir liðnum um störf þingsins. Það hafa ekki komið mjög mörg mál frá ríkisstjórninni og það er kannski allt í lagi en þá gefur það okkur tækifæri til að taka þingmannamálin fyrir. Við erum með ein 26 mál í Bjartri framtíð, öll auðvitað feykigóð, og þau þingmannamál sem ég hef kíkt á frá öðrum þingmönnum eru mörg hver mjög góð og eiga erindi hingað í þingsal. Mér finnst við hafa mælt fyrir allt of fáum þingmannamálum. Ég veit ekki hvort allt strandar núna á áfengismálinu umdeilda en mér finnst það vera sóun á tíma í haust að hafa ekki getað tekið fleiri þingmannamál inn í nefndir og sent til umsagnar, við værum þá að koma þeim áfram hér í þinginu. Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að við höfum mælt fyrir örfáum málum í Bjartri framtíð, hvort við náum því að hafa mælt fyrir fjórum eða fimm málum, það er ekki meira.

Ég veit ekki alveg hvað er til ráða. Nú erum við að detta inn í fjárlagaumræðuna og væntanlega gengur það þá fyrir fram að jólum. En ég vil endilega að þegar við komum aftur saman til þings eftir jól tökum við góðan skurk í þingmannamálum, vegna þess að þau eru mjög góð og oft og tíðum betri en það sem kemur frá stjórnvöldum.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna