145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

Landhelgisgæsla Íslands.

264. mál
[16:35]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar í þessu máli er varðar breytingar á lögum um Landhelgisgæslu Íslands. Hér er um að ræða frumvarp sem skýtur skýrri lagastoð undir þau verkefni sem Landhelgisgæsla Íslands hefur sinnt erlendis. Það kom fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis að æskilegt væri að kveða skýrar á um lagaheimild stofnunarinnar til að taka að sér verkefni erlendis og tryggja að innanríkisráðuneytið hefði markvisst eftirlit með þeim verkefnum.

Eftir að þetta frumvarp verður vonandi samþykkt í þinginu á það að taka af öll tvímæli um heimild stofnunarinnar til að sinna þessum verkefnum. Ég fagna því að sjálfsögðu að við verðum hér við þeim ábendingum sem birtust í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Stofnunin hefur sinnt verkefnum erlendis frá árinu 2010. Upphaflega var farið í það til að afla tekna þannig að varðskip, þyrlur og flugvélar stofnunarinnar gætu haldist í rekstri á þeim miklu aðhaldstímum sem við þekkjum. Það kom fram á fundum nefndarinnar að þessi verkefni hafa fært stofnuninni og starfsmönnum hennar mikla þekkingu og reynslu í að sinna störfunum. Við í nefndinni teljum mjög mikilvægt að þessi reynsla og þekking haldi áfram að byggjast upp hjá stofnuninni og fögnum því að starfsmenn Landhelgisgæslunnar eigi þess kost að sinna verkefnum sem þessum en áréttum þó mikilvægi þess að þetta hafi ekki áhrif á þá grunnþjónustu sem Landhelgisgæslunni er ætlað að sinna við Ísland, þ.e. löggæslu og það að tryggja öryggi við Ísland.

Við leggjum til að þetta frumvarp verði samþykkt óbreytt og undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn Guðmundur Steingrímsson, Haraldur Einarsson, Karl Garðarsson, Ásta Guðrún Helgadóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Árnason og sú sem hér stendur.