145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

Landhelgisgæsla Íslands.

264. mál
[16:38]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lýsa andstöðu við þetta frumvarp. Miklu frekar ætla ég að styðja það. Samt sem áður vil ég nota þetta tækifæri til að rifja upp að þegar menn lögðu á sínum tíma drög að smíði þessa skips og að fá það til Íslands var það vitaskuld gert á grundvelli þess að við þyrftum að axla frekari verkefni hér við strendur. Þetta var bókstaflega rökstutt á sínum tíma með ákveðnum breytingum í utanríkismálum Íslendinga sem leiddu til þess að ríkisstjórn á þeim tíma taldi mikilvægt að fá skip af þessu tagi.

Ég rifja það upp að Björn Bjarnason sem þá var einna fremstur forvígismanna fyrir því að þetta skip yrði byggt flutti fyrir því mörg og góð rök og þurfti að taka nokkuð á til að sannfæra menn um gildi þess. Síðan hefur þetta farið á þann veg að þetta skip sem er náttúrlega mjög merkilegt og líkast til fremsta skip Evrópu í sínum stærðar- og gerðarflokki hefur löngum stundum verið við störf annars staðar en að sinna grunnþjónustunni og sjá um ákveðin störf við Ísland.

Ég held því alls ekki fram að það hafi komið okkur að öðru leyti í koll en þetta var annað en það sem menn lögðu upp með í upphafi.

Þegar hér urðu mikil efnahagsáföll lá ljóst fyrir að þetta væri einfaldlega fjárhagslega nauðsynlegt til að hægt væri að reka skipið og Landhelgisgæsluna á þeim tíma en nú virðist mér sem gert sé ráð fyrir því og stoðum slegið undir það að svona verði þetta í framtíðinni. Er það þá ástæðan fyrir að við fórum í að fá þetta skip?

Ég er ekki á móti því að Landhelgisgæslan öðlist sérstaka reynslu en hvernig finnst hv. þingmanni þessi þróun hafa verið? Gæti hv. þingmaður til dæmis skýrt út fyrir mér hver þessi mikilvæga reynsla er sem þarna er aflað með þessum hætti? (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður að hér sé kannski verið að leggja grunn að því að þetta skip verði meira og minna í útleigu fjarri landsins ströndum?