145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

Landhelgisgæsla Íslands.

264. mál
[16:40]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, þvert á móti. Það kemur fram í nefndarálitinu að við áréttum að þessi verkefni megi ekki hafa áhrif á þá grunnþjónustu sem Landhelgisgæslunni ber að veita við löggæslu og öryggi við Ísland. Við erum með þau sjónarmið uppi og þau sjást einnig í greinargerð með frumvarpinu sjálfu.

Við fengum á okkar fund fulltrúa bæði frá ráðuneytinu og stofnuninni sem fóru yfir það með nefndarmönnum hvaða þekkingu þetta hefur fært stofnuninni. Það er mikilvægt fyrir okkar fólk sem sinnir þessum mikilvægu störfum að læra nýja hluti, að endurmennta sig, og maður gerir að best með því að vera á fullu í því að sinna verkefnum. Það var mat allra sem komu á fund til okkar að þessi verkefni væru mikilvæg fyrir stofnunina en rétt er að gæta að því að þetta verði ekki aðalstarfsemi Landhelgisgæslunnar. Ég held að allir séu meðvitaðir um það, enda á frumvarpið líka að tryggja eftirlit ráðuneytisins með þessum ákvörðunum og störfum eins og Ríkisendurskoðun bendir á í skýrslu sinni að nauðsynlegt sé að gera.