145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

Landhelgisgæsla Íslands.

264. mál
[16:42]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Á sínum tíma var þessi ákvörðun umdeild, hún var þörf og nauðsynleg en samt sem áður var hún rædd í þaula í að minnsta kosti tveimur ríkisstjórnum, hugsanlega fleirum. Ég hafði ætlað mér að halda töluverða ræðu um þessi mál og það hvernig Landhelgisgæslan hefur þróast og með hvaða hætti þessar mikilvægu fjárfestingar okkar eru nýttar í dag en á degi þessa mikla friðar og þessum gleðidegi í sameiginlegu lífi Alþingis og hæstv. forseta ætla ég ekki að þreyta þingið með því.

Ég taldi þó rétt að það kæmi fram hjá að minnsta kosti einum þingmanni að þarna verða menn að passa sig. Við verðum að gæta þess að haga starfsemi þessa skips og annarra kosta Landhelgisgæslunnar með þeim hætti að þó að vissulega sé um að ræða mikilvæga tekjuöflun séu menn samt sem áður ekki að smyrja sig of þunnt og of fjarri Íslandi til að það komi niður á grunnþjónustunni.

Ég fellst alveg á þau rök hv. þingmanns að með þeim orðum sem koma fram í nefndarálitinu og skýrri yfirlýsingu hennar sjálfrar sem framsögumanns sé það meðal annars ætlun nefndarinnar með samþykktinni og því eftirlitshlutverki sem það færir þá fjármálaráðuneytinu, og ríkisstjórn eftir atvikum, með starfseminni að sjá til þess að það verði skýrt aðhald með þeim ákvörðunum sem kunna að verða teknar af yfirstjórn Gæslunnar varðandi leigu á þessu skipi.

Mér finnst nauðsynlegt að viðhorf mitt komi hér fram en ítreka svo það sem ég sagði áðan, það er ekki ætlan mín að leggjast gegn þessu frumvarpi. Þetta eru samt sjónarmið sem verða að koma fram vegna þess að þau eru í samræmi við þau skýru sjónarmið sem sett voru fram af upphafsmanni málsins og sem hann notaði til að slást fyrir málinu og ná því í gegn sem var umdeilt á sínum tíma.