145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

Landhelgisgæsla Íslands.

264. mál
[16:44]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mjög mikilvægt að þessi sjónarmið komi skýrt fram. Þó er rétt að vekja líka athygli á þeim kafla í greinargerðinni sem fjallar sérstaklega um þetta eftirlit og með hvaða hætti Landhelgisgæslan á að gera ráðherra grein fyrir umfangi verkefna erlendis hverju sinni. Kröfur um innlent öryggis- og þjónustustig stýra því í hve miklum mæli stofnunin tekur þátt í slíkum verkefnum.

Í greinargerðinni kemur fram að hafin sé vinna við gerð landhelgisgæsluáætlana fyrir stofnunina og að þar verði sett fram skýr viðmið. Þá á stofnunin að meta hættuna sem þátttaka í slíkum verkefnum hefur í för með sér fyrir bæði áhafnir og eins þau tæki sem við sannarlega höfum fjárfest í með skattfé almennings. Þetta hættumat var gert í samvinnu við embætti ríkislögreglustjóra ásamt Rauða krossinum og Landspítala vegna áhættu af smitsjúkdómum sem gætu fylgt slíkum verkefnum.

Eins og fram kom í ræðu minni miðar frumvarpið að því að skýra og tryggja kerfisbundið eftirlit með starfsemi stofnunarinnar og að það verði algjörlega tryggt að það sé alltaf upplýst ákvörðun um hvort rétt sé að taka að sér slík verkefni.