145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

mannréttindasáttmáli Evrópu.

329. mál
[16:49]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar í þessu máli er varðar mannréttindasáttmála Evrópu. Í frumvarpinu er lagt til að 15. viðauki við samninginn um verndun mannréttinda og mannfrelsis verði lögfestur, en viðaukinn lýtur að efnisbreytingu á reglum og regluumhverfi og ákvæðum er varða formþætti um gildistöku og undirritun.

Við fengum til okkar gesti, þ.e. fulltrúa frá ráðuneytinu, og fulltrúa frá Mannréttindaskrifstofu Íslands til að fara yfir málið og komumst að þeirri niðurstöðu að rétt sé að samþykkja þetta frumvarp óbreytt. Við tökum þó fram að í frumvarpinu er verið að stytta kærufresti dómstólsins úr sex mánuðum í fjóra. Við bendum sérstaklega á það atriði í nefndaráliti okkar enda ræddum við það atriði mest í meðferð okkar á málinu. Reifuð voru þau sjónarmið að þessi þróun væri í samræmi við kærufresti í aðildarríkjunum vegna aukinnar þróunar í samskiptatækni.

Við sem undirritum þetta nefndarálit viljum þó undirstrika að tryggja verður að þessi stytting á kærufresti muni ekki fela í sér skerðingu á mannréttindum.

Tveir hv. þingmenn, hv. þm. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttur og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara. Ég sé að þær eru ekki í salnum þannig að ég mun gera grein fyrir honum. Fyrirvari hv. þingmanna felst í ákveðnum áhyggjum af þrengingu málskotsréttar fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, einkum styttri kærufresti. En í ljósi þess að hvorki Mannréttindaskrifstofa Íslands né önnur samtök á sviði mannréttinda hafa gert athugasemdir við það þá samþykkja þingmenn nefndarálitið að öðru leyti.

Undir nefndarálitið skrifa sú sem hér stendur og hv. þingmenn Guðmundur Steingrímsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Karl Garðarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Vilhjálmur Árnason og eins og áður sagði skrifa hv. þm. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir undir álitið með fyrirvara.