145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla.

385. mál
[16:52]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 37/1992, á þskj. 521, 385. mál. Það fjallar um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla.

Í frumvarpinu er lagt til að skilgreiningunni á því hvað telst vera ólögmætur sjávarafli í skilningi laganna verði breytt. Í núgildandi lögum telst ólögmætur sá sjávarafli sem fenginn er umfram aflaheimildir eða án þess að tilskilin sérveiðileyfi samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands séu fyrir hendi, svo og afli sem 2. mgr. 7. gr. laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla tekur til, þ.e. afli umfram uppgefin kaup eða aðföng. Ekki eru nein haldbær rök fyrir því að marka skilgreiningunni svo þröngt gildissvið.

Í frumvarpinu er lagt til að talið verði upp í sjö töluliðum hvað telst vera ólögmætur sjávarafli og skilgreiningin muni þannig einnig taka til afla sem fenginn er án þess að tilskilin veiðileyfi hafi verið fyrir hendi, afla sem fenginn er utan leyfilegra veiðidaga, afla sem fenginn er með óleyfilegum veiðarfærum, afla sem fenginn er af svæði þar sem viðkomandi veiðar eru bannaðar og afla sem ekki nær þeirri lágmarksstærð sem kveðið er á í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða sérstökum veiðileyfum.

Ástæður þess að talið er rétt að gera allan afla upptækan sem fenginn hefur verið með ólögmætum hætti er að enginn á að geta hagnast á lögbroti, þ.e. ekki á að vera fjárhagslegur hvati til að brjóta af sér. Verði frumvarpið að lögum verður meira jafnræði í því hvaða afli sem fenginn er með ólögmætum hætti eða andstætt friðunarreglum verði gjaldtækur samkvæmt lögum um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Með þessu verði hvatinn til að brjóta af sér þurrkaður út.

Virðulegi forseti. Ég hef nú rakið helstu atriði frumvarpsins sem miða að því að víkka út skilgreininguna á því sem telst vera ólögmætur sjávarafli og vísa að öðru leyti til frumvarpsins og greinargerðar.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.