145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

siglingalög o.fl.

375. mál
[16:55]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á siglingalögum, nr. 34/1985, umferðarlögum, nr. 50/1987, og lögum um rannsókn samgönguslysa, nr. 18/2013.

Frumvarpið er samið til að innleiða EES-reglur á sviði samgöngumála. Til einföldunar var ákveðið að sameina breytingar á fyrrgreindum lögum í eitt frumvarp, en skilyrði fyrir því var að um hreinar EES-innleiðingar væri að ræða og að ekki yrði gengið lengra en nauðsynlegt er í skuldbindingum stjórnvalda vegna EES-samningsins.

Með breytingum á siglingalögum er lagt til að innleidd verði reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1177/2010 sem kveður á um reglur um réttindi farþega sem ferðast á sjó eða skipgengum vatnaleiðum. Hvergi er að finna ítarlegar reglur um réttindi farþega á sjó í íslenskum rétti og er því nauðsynlegt að breyta siglingalögum. Reglurnar mæla fyrir um bann við mismunun farþega varðandi flutningsskilyrði, bann við mismunun gagnvart fötluðu fólki og hreyfihömluðum einstaklingum, aðstoð við þá, réttindi farþega þegar ferð er aflýst eða henni seinkar, lágmarksupplýsingar sem veita á farþegum, meðferð kvartana og almennar reglur um framfylgd reglugerðarinnar.

Reglurnar gilda um skip í áætlunarsiglingum með farþega, en ýmis skip eru undanþegin gildissviði hennar. Má þar helst nefna minni skip sem flytja einungis allt að 12 farþegum, skip þar sem áhafnarmeðlimir eru ekki fleiri en þrír og skip í skoðunar- og kynnisferðum, t.d. skip í ferðaþjónustu.

Reglurnar gera þó ekki kröfu til útgerðar skipa eða hafna að breyta eða skipta út skipum, grunnvirkjum, höfnum eða hafnarmiðstöðvum. Þá bera útgerðir ekki ábyrgð á því að ferð er aflýst eða henni seinkað vegna veðurskilyrða.

Vegna umferðarlaga eru tillögur frumvarpsins um breytingar á umferðarlögum sem miða að því að tryggja lagastoð fyrir tvær EES-reglugerðir, annars vegar reglugerð nr. 167/2013, um gerðarviðurkenningar dráttarvéla, og hins vegar reglugerð ESB nr. 168/2013, um gerðarviðurkenningar bifhjóla. Í báðum reglugerðunum eru gerðar þær kröfur til aðildarríkjanna að þau sekti framleiðanda, fulltrúa framleiðanda, innflytjanda eða dreifingaraðila ökutækja ef þeir framvísa röngum upplýsingum um gerðarviðurkenningu sem leitt geta til innköllunar ökutækja. Það sama á við ef fölsuðum prófunarniðurstöðum er framvísað, gögnum sem varða tækniupplýsingar er leynt eða neitað er að afhenda þau. Með frumvarpinu er lögð til lagastoð fyrir slíkar sektir. Það liggur fyrir að sú sektarheimild mun þó hafa óbein áhrif hér á landi í ljósi þess að hérlendis eru hvorki framleiðendur dráttarvéla né bifhjóla. Þá annast innflytjendur ökutækja hér á landi ekki gerðarviðurkenningar ökutækja nema í mjög litlum mæli enn sem komið er.

Til viðbótar eru lagðar til breytingar á skilgreiningu bifhjóls og torfærutækis í samræmi við reglugerð ESB nr. 168/2013. Tillagan felur í sér að ekki verður lengur mælt fyrir um hámarksþyngdir þessara ökutækja í umferðarlögum, heldur verður það nánar útfært í reglugerð sem skapar meiri sveigjanleika til að bregðast við breyttum ökutækjum og aðstæðum.

Þá eru breytingar á lögum um rannsókn samgönguslysa. Tillögum um breytingar á þeim lögum er ætlað að tryggja að lögin samræmist þeim tveimur EES-gerðum sem þegar hafa verið innleiddar, annars vegar tilskipun um rannsókn sjóslysa og hins vegar reglugerð um rannsókn flugslysa. Helstu breytingar eru í fyrsta lagi þær að lagt er til að í vissum tilvikum slysa og atvika muni rannsóknarnefnd samgönguslysa ekki lengur geta ákveðið upp á sitt einsdæmi hvort af rannsókn verður, heldur verður það skylt. Í öðru lagi er lögsaga nefndarinnar við rannsókn sjóslysa og atvika rýmkuð í samræmi við ákvæði tilskipunar um rannsókn sjóslysa. Í þriðja lagi er lagt til að felld verði brott heimild ráðherra til að beina því til nefndarinnar að endurupptaka mál, en slík heimild brýtur gegn sjálfstæði nefndarinnar að mati ESA. Þess í stað er lagt til að nefndinni beri að rökstyðja sérstaklega ákvarðanir um hvort mál er endurupptekið.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginefni frumvarpsins.

Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar til þóknanlegrar meðferðar og 2. umr.