145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

lokafjárlög 2014.

374. mál
[17:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til lokafjárlaga fyrir árið 2014. Frumvarpið er lagt fram í samræmi við lög nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, til staðfestingar á ríkisreikningi fyrir árið 2014.

Framsetning á talnaefni frumvarpsins er í samræmi við fjárlög og fjáraukalög ársins 2014 og niðurstöðu ríkisreiknings fyrir sama ár og er með sama sniði og frumvarp til lokafjárlaga fyrir árin þar á undan. Í frumvarpinu er stuðst við sömu vinnureglur og áður hvað varðar útreikning á fjárheimildabreytingum vegna ríkistekjufrávika og uppgjör og ráðstöfun á fjárheimildastöðum í árslok.

Samkvæmt 45. gr. fjárreiðulaga skal í lokafjárlögum leita heimilda til uppgjörs á gjöldum umfram fjárheimildir ársins og ónotuðum fjárheimildum sem ekki eru fluttar milli ára. Einnig skal í frumvarpinu gera grein fyrir ónýttum lántökuheimildum liðins árs. Jafnframt skal leggja fram sérstaka skrá yfir geymdar afgangsfjárheimildir og um þá aðila sem hafa farið fram úr fjárheimildum ársins.

Í 37. gr. laganna er heimild til að geyma ónýttar fjárveitingar í lok reikningsársins og með sama hætti að draga umframgjöld fyrra árs frá fjárveitingu ársins.

Efnisatriði frumvarpsins eru í stórum dráttum á þá leið að í 1. gr. er leitað heimilda til að breyta fjárveitingum í sama mæli og reikningsfærðar ríkistekjur hafa samkvæmt uppgjöri vikið frá áætlunum fjárlaga og fjáraukalaga. Þar er þá um það að ræða að stofnanir eða verkefni sem fjármögnuð eru með hlutdeild í ríkistekjum fái meiri eða minni heimildir til ráðstöfunar á tekjunum eftir því hvort tekjurnar hafa reynst vera meiri eða minni en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir.

Í 2. gr. er lögð til niðurfelling á stöðu fjárheimilda í árslok. Þar er þá um að ræða afgangsheimildir og umframgjöld sem ekki flytjast milli ára og koma þar með ekki til breytinga á fjárheimildum ársins á eftir. Hér er meðal annars um að ræða fjárheimildastöður verkefna þar sem útgjöld ráðast af öðrum lögum en fjárlögum, svo sem almannatryggingar og lífeyrisskuldbindingar.

Í fylgiskjali 1 með frumvarpinu er yfirlit um fjárheimildastöður í árslok 2014 sem gert er ráð fyrir að verði fluttar til ársins 2015. Það eru þá aðrar árslokastöður en þær sem lagt er til að verði felldar niður í árslok samkvæmt 2. gr. frumvarpsins.

Í fylgiskjali 2 með frumvarpinu er yfirlit yfir talnagrunn þess. Yfirlitið sýnir uppruna allra fjárheimilda ársins 2014 bæði fyrir ríkissjóð í heild og einstök fjárlagaviðfangsefni. Þar er um að ræða yfirfærðar fjárheimildastöður frá fyrra ári, fjárheimildir samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum, millifærðar fjárheimildir innan ársins og breytingar á fjárheimildum vegna frávika ríkistekna samkvæmt þessu frumvarpi. Því næst eru tilfærð útgjöld samkvæmt ríkisreikningi og loks fjárheimildastaða í árslok.

Heildarfjárheimildir á árinu 2014 námu 657,3 milljörðum kr. en útgjöld samkvæmt ríkisreikningi voru 642,5 milljarðar kr. Fjárheimildastaða í árslok var því jákvæð um 14,8 milljarða kr., eða um 2,2% af heildarfjárheimildum ársins. Árslokastaðan skiptist í samtals 33,5 milljarða kr. afgangsheimildir og 18,7 milljarða kr. umframgjöld á einstökum fjárlagaliðum. Eins og jafnan áður eru það nokkrir óreglulegir liðir sem eru fyrirferðarmestir hvað varðar frávik reikningsfærðra útgjalda frá fjárheimildum.

Þar má í fyrsta lagi nefna 5,2 milljarða kr. afgangsheimild á fjárlagalið lífeyrisskuldbindinga vegna minni hækkunar á gjaldfærðum skuldbindingum í ríkisreikningi en áætlað var í fjárlögum og fjáraukalögum. Í öðru lagi 4,7 milljarða kr. umframgjöld vegna afskrifta skattkrafna. Í þriðja lagi 3 milljarða kr. afgangsheimild á lið Íbúðalánasjóðs þar sem ekki reyndist þörf á að leggja sjóðnum til allt rekstrarframlagið sem heimilað var í fjárlögum. Í fjórða lagi 2,6 milljarða kr. afgangsheimild á liðnum Ófyrirséð útgjöld og í fimmta lagi 1,6 milljarða kr. umframgjöld vegna niðurfærslu í ríkisreikningi á bókfærðu verðmæti eignarhluta í fyrirtækjum og sjóðum.

Vík ég þá nánar að lagagreinum frumvarpsins. Í 1. gr. frumvarpsins eru tillögur um breytingar á fjárheimildum ársins 2014 vegna frávika markaðra skatttekna og annarra rekstrartekna stofnana frá áætlunum fjárlaga og fjáraukalaga. Lagt er til að fjárheimildir verði auknar um rúma 2 milljarða kr. samkvæmt þessu uppgjöri á fjármögnun verkefna með mörkuðum ríkistekjum. Nánar tiltekið er hér leitað eftir heimild Alþingis fyrir því að ráðstafa þessum tekjum í samræmi við það hverjar þær urðu samkvæmt uppgjöri ríkisreiknings eða hver metin fjárþörf verkefna, sem fjármögnuð eru með þessum tekjum, reyndist vera. Almennt gildir að útgjaldaheimildir hækka sem nemur mörkuðum tekjum umfram fjárlög en lækka hafi tekjurnar reynst minni en áætlað var. Þetta viðmið er þó ekki algilt því ekki eru lagðar til breytingar á fjárheimildum vegna ríkistekjufrávika þar sem ekki er beint samband milli tekna og útgjaldaþarfar þannig að breyting á tekjum hafi bein áhrif á kostnað, svo sem útgjöld lífeyristrygginga.

Í 2. gr. frumvarpsins eru tillögur um niðurfellingar á fjárheimildastöðum í árslok 2014. Meginviðmiðun hvað þetta varðar er sú að felld er niður staða á fjárlagaliðum þar sem útgjöld ráðast af öðrum lögum en fjárlögum eða eru samningsbundin og verður ekki stýrt nema með breytingum þar á. Sama á við um liði þar sem útgjöld ráðast af hagrænum, kerfislægum eða reikningshaldslegum þáttum fremur en fjármálastjórn tiltekins stjórnsýsluaðila. Einnig er við það miðað að niður falli afgangsheimildir í almennum stofnanarekstri og öðrum reglubundnum rekstrarverkefnum sem eru umfram 10% af fjárlagaveltu viðkomandi verkefna nema sérstakar ástæður séu taldar til annars. Fjárheimildastaða fellur einnig niður ef verkefni er lokið.

Samkvæmt 2. gr. frumvarpsins falla niður 6,2 milljarða kr. afgangsheimildir á rekstrargrunni en 10,2 milljarðar kr. á greiðslugrunni. Munurinn þarna á milli stafar af því að niður falla fjárheimildastöður á fjárlagaliðum þar sem útgjöld ráðast af reikningshaldslegum gjaldfærslum án samsvarandi greiðslna úr ríkissjóði á árinu, svo sem afskriftir skattkrafna, niðurfærslur á verðmæti eignarhluta og hlutafjár og lífeyrisskuldbindingar.

Ég hef hér, virðulegi forseti, farið yfir helstu þætti frumvarpsins. Með því eru lagðar fyrir Alþingi niðurstöður úr rekstri einstakra stofnana, verkefna og A-hluta ríkissjóðs í heild gagnvart fjárheimildum á árinu 2014. Vísast í því sambandi til greinargerða í fjáraukalögum og ríkisreikningi um meginatriði í framvindu ríkisfjármálanna og helstu frávik í tekjum og gjöldum. Þá hefur Ríkisendurskoðun lagt fyrir Alþingi skýrslu um framkvæmd fjárlaga árið 2014.

Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar þingsins.