145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

lokafjárlög 2014.

374. mál
[17:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er því miður svo að ríkissjóður hefur þurft að leggja Íbúðalánasjóði til um 50 milljarða á undanförnum árum í kjölfar þeirra áfalla sem hafa orðið í fjármálakerfinu og efnahagslífinu. 50 milljarðar eru framlögin sem hafa komið beint úr ríkissjóði til að styðja við sjóðinn og tryggja algjöra lágmarksstöðu sjóðsins hvað eiginfjárhlutföll snertir. Þetta hefur reynst nauðsynlegt vegna þess að ríkissjóður hefur lýst því yfir að hann muni standa sem bakhjarl Íbúðalánasjóðs vegna þeirra skuldbindinga sem hann hefur tekist á herðar.

Á árinu 2014 var gert ráð fyrir því að nokkuð myndarlegt framlag til sjóðsins þyrfti að koma til sjóðsins og eins og hér er rakið þá reyndist uppgjör vegna ársins 2014 nokkuð hagfelldara en menn sáu fyrir undir árslok 2013. Því má fagna. Það breytir því ekki að sjóðurinn hefur fram á þennan dag glímt við talsverðan uppgreiðsluvanda og af þeim sökum hefur verið ástæða til að hafa áhyggjur af því með hvaða hætti starfsemi sjóðsins verði haldið áfram til lengri tíma.

Á þessu ári sýnist mér að Íbúðalánasjóður muni ekki þurfa á stuðningi frá ríkinu að halda sérstaklega vegna rekstrarins. Sjóðurinn hefur á árinu verið að losa um eignir og koma aftur í verð eignum sem hann fékk í fangið vegna veðkalla og annarra fjárhagsvandræða viðskiptamanna sjóðsins og því ber að fagna. En það verkefni er í sjálfu sér enn þá óleyst hvernig við sjáum fyrir okkur starfsemi sjóðsins til lengri tíma.