145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

lokafjárlög 2014.

374. mál
[17:11]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Er ekki fullseint að segja núna að það sé allsendis óljóst hverju menn eru að velta fyrir sér varðandi framtíð Íbúðalánasjóðs?

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvenær má vænta þess að menn komist að einhverri niðurstöðu um það? Hver er það sem leggur hana til, er það hann eða er það hæstv. húsnæðismálaráðherra eða ríkisstjórnin í heild? Hvenær má þess vænta? Það væri ágætt ef hann gæti skýrt málið aðeins varðandi það.

Hinu fagna ég að fjárhagur Íbúðalánasjóðs skuli standa miklu betur en menn áttu von á á þessum tíma. Ástæðan fyrir því að ég staldraði við í sporinu þegar hæstv. ráðherra veitti þessar upplýsingar áðan er auðvitað sú að fyrir tveimur árum að ég hygg, á síðasta ári fyrri ríkisstjórnar, voru mjög harðar ásakanir uppi um hvernig haldið hefði verið á málum Íbúðalánasjóðs. Þá komu fram tölur hér í þinginu og því var haldið fram af að minnsta kosti einum hv. þingmanni að honum yrði féskylft sennilega upp að markinu 147 milljarðar ef ég man rétt. Miðað við að við höfum þó ekki þurft að leggja til hans nema 50 milljarða, sem sannarlega er há upphæð en hefði getað verið mun þyngri vegna uppgreiðsluvandans, þá þykja mér þetta góð tíðindi.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Má draga þá ályktun að sjóðurinn sé kominn í gegnum skaflinn og útlit sé fyrir að það þurfi ekki að leggja honum til meira fé?