145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

lokafjárlög 2014.

374. mál
[17:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þetta er kannski mál sem kveikir ekkert óskaplega í þingmönnum oft og tíðum. Lokafjárlög þykja ekkert endilega mjög spennandi (ÖS: Jú.) en verðskulda engu að síður alla athygli, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson gefur réttilega til kynna úti í salnum.

Á köflum eru þau nefnilega mjög mikilvæg, sérstaklega ef verið er að taka einhverjar nýjar pólitískar ákvarðanir og framkvæma þær í gegnum lokafjárlög, eins og auðvitað getur verið á ferðinni. Það mun að vísu ekki eiga við hér í miklum mæli, að ég best fæ séð, og það kemur fram í frumvarpinu, sem er allt rétt um, að það var tekið vel til í þessum geira, eins og á fleiri sviðum, í upphafi síðasta kjörtímabils enda ekki vanþörf á. Við afgreiðslu lokafjárlaga fyrir árið 2008 fór fram mikil hreingerning sem fólst í því að felldar voru niður gríðarlegar stöður sem höfðu hlaðist upp árin á undan, þá höfðu menn ekki verið mikið í tiltektum, og reynt að móta tilteknar verklagsreglur í kringum þetta mál. Fram kemur í greinargerðinni að í aðalatriðum hefur þetta, sem var smíðað á tiltölulegum hlaupum og nokkuð hratt, þó ekki gefist verr en það að hér er hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson að leggja fram lokafjárlög og vísar til þeirra vinnureglna sem þarna voru mótaðar á árinu 2009, hygg ég vera frekar en að það hafi verið komið inn undir áramótin 2009/2010.

Í grófum dráttum var þetta sem sagt þannig að menn hugsuðu sér að setja tiltekið þak á yfirfærslu almennra liða. Menn gætu fært 4% af ónýttum heimildum miðað við veltu í rekstrinum yfir á næsta ár. Ef þeim gengi vel ár eftir ár gætu þeir safnað sér saman smátt og smátt upp í 10%. Einhver slík regla þarf að vera við lýði. Það er alveg bráðnauðsynlegt að einhver hvati sé til staðar fyrir menn og þeir njóti þess í einhverjum mæli ef þeim tekst að haga rekstri sínum með svo hagkvæmum hætti að einhver afgangur verður. En það er á hinn bóginn ómögulegt að það hlaðist upp í einhverjar gríðarlegar fjárhæðir sem aftur geta svo leitt til snöggaukinna útgjalda, af einhverjum ástæðum, og menn hafa litla stjórn á.

Á hina hliðina, og kannski hefur gengið mun verr þar, er ástæða til að inna hæstv. fjármálaráðherra aðeins eftir því hvernig á að fara með útgjöld umfram heimildir og uppsöfnuð útgjöld umfram heimildir, þ.e. skuld sem þá myndast við ríkissjóð og er færð í bókhaldi stofnana ár eftir ár og við þekkjum. Margir hafa búið við það á erfiðleikaárum í rekstri, t.d. margir framhaldsskólanna á umliðnum 15–20 árum, að vera með uppsafnaðan gamlan skuldahala á herðunum og eiga samkvæmt reglum helst að gera hann upp árið eftir sem er auðvitað yfirleitt ekki hægt. Kannski eru menn bara að bæta við hallann af því að þeir geta engan veginn rekið sig innan heimilda og þá hleðst stabbinn upp.

Það var í þessari vinnu gengið út frá því að menn mundu búa til einhvers konar reglu og hún var eitthvað kynnt og rædd og framkvæmd, ef ég best veit, sem væri á þeim nótum að ef mönnum tækist að koma rekstri sínum inn fyrir heimildir og þeir gerðu upp þrátt fyrir skuldahala sem lægi geymdur með jákvæðri niðurstöðu þrjú ár í röð þá hæfist umbunartímabil í þeim skilningi að menn færu að höggva niður eitthvað af þessum skuldahala. Í nokkrum tilvikum var þetta gert og til dæmis naut Landspítalinn á einhverjum tíma góðs af, ef ég veit rétt.

En í öðrum tilvikum hefur þetta ekki tekist eða ekki verið gert og þarna held ég að það vanti miklu meiri festu í framkvæmdina. Við höfum dragnast með mál sem eru okkur öllum til skammar sem einhverja aðild höfum átt að því í gegnum tíðina eða ábyrgð á því borið, eins og skuldahalann á landbúnaðarskólunum. Það er auðvitað ekki nokkur leið að stofnanir séu undir þessu þrúgandi oki kannski upp undir áratug. Að gamlar skuldir séu alltaf endalaust á herðunum á þeim og þar af leiðandi blikki öll ljós rauð þegar kennitölur þeirra eru skoðaðar og ekki gaman að vera stjórnandi í slíkri stofnun. Það getur stundum verið um eldgamlan vanda að ræða sem hefur ekkert að gera með núverandi stjórnendur viðkomandi stofnunar eða möguleika þeirra til að vinna á þessum ósköpum.

Ég veit ekki betur til dæmis en að í bókhaldi Hólaskóla standi enn þá skuld við ríkið vegna um tíu ára gamallar tapaðrar viðskiptakröfu. Á það við eitthvert áfall skólans og hann sem sagt tapaði fjármunum vegna þess að hann fékk ekki greitt. En þá situr hann uppi með þetta allt saman sem halla ár eftir ár. Það væri gaman að heyra aðeins meira um þetta.

Í öðru lagi með Íbúðalánasjóð er það að sjálfsögðu ánægjulegt að sjóðurinn reyndist ekki í þeim bráðavanda sem menn héldu, að það yrði nauðsynlegt að setja inn í hann 3 milljarða í viðbót í eiginfjárinnspýtingu. Vissulega er búið að þurfa að hlaupa verulega undir bagga með sjóðnum. Það er eitthvað í kringum 50 milljarðar samtals, ef ég man rétt, sem inn í hann hafa verið greiddir.

En við skulum þá ekki gleyma ýmsum hlutum á móti, svo að sanngirni sé nú gætt í garð Íbúðalánasjóðs. Í fyrsta lagi mátti náttúrlega við því búast að hann eins og allar aðrar fjármálastofnanir, útlánastofnanir, yrðu fyrir einhverju höggi eftir hrunið.

Í öðru lagi tók hann auðvitað á sig veruleg útgjöld vegna aðgerða sem hann tók þátt í ásamt með öðrum varðandi niðurfellingu skulda, frystingu lána, 110%-leiðina og annað í þeim dúr. Auðvitað gerðu menn það með opin augun og vitandi það að sjóðurinn hafði þá ekki borð fyrir báru til að taka það algjörlega á sig og yrði að fá stuðning í þeim efnum.

Í þriðja lagi er ljóst að ýmis mistök sem gerð voru í fortíðinni eru sjóðnum erfið í skauti. Nú hefur það gerst á hinn bóginn að sjóðurinn hefur náð að endurfjárfesta eitthvað af uppgreiðslufé sínu í vaxtagefandi tekjum með kaupum fyrir það lausafé á veðlánum af Seðlabankanum og það kann vel að vera, ég þekki ekki nákvæmlega hversu hagstæð þau viðskipti eru, en ég gef mér að það sé alla vega mun betri kostur en að liggja með laust fé og reyna að ávaxta það.

Ég ætla ekki að mótmæla í sjálfu sér því sem hæstv. fjármálaráðherra sagði. Það var allt rétt sem hann sagði um það sem þarf að skoða. Ef menn eru í alvöru að tala um að taka Íbúðalánasjóð út af markaði þá standa þar eftir hlutir sem engan veginn er fyrirséð að verði í lagi og eru það kannski ekki einu sinni í dag, eins og útlán til íbúðabygginga á landsbyggðinni og félagslegi hluti húsnæðiskerfisins og annað í þeim dúr.

Ég hef ekki neina sannfæringu fyrir því að ekki geti verið áfram hagkvæmt og mikilvægt að sjóðurinn megi lána til almennra íbúðakaupa eða bygginga, líka hér á höfuðborgarsvæðinu, upp að þeim mörkum sem við höfum fengið samþykkt af hinu evrópska regluverki, þ.e. til lítilla íbúða, venjulegra íbúða, sem eru þá hugsaðar í þeim skilningi á félagslegum grunni að það sé að breyttu breytanda yfirleitt tekjulægra fólk sem kaupir minni íbúðirnar en láta þá öðrum eftir að lána út í miklar villur og annað í þeim dúr. Þannig gæti starfsemi sjóðsins orðið hagkvæmari og kjörin betri. Það ætti að geta verið þannig.

Ég hef ekki sannfærst um það, þó að tímabundið kunni að vera, að bankar eða aðrir slíkir bjóði betri og hagstæðari kjör. En hvers vegna skyldi „i det lange løb“, eins og Danskurinn mundi segja, ekki sjóður með ábyrgð ríkisins geta boðið bestu kjörin? Það er eitthvað skrýtið ef svo er ekki því að hann ætti að eiga greiðastan aðgang að fjármagni á góðum kjörum, vegna þess að hann er með ríkissjóð að bakhjarli. Það er eitthvað skrýtið ef til lengdar er ekki hægt að nýta það til þess að bjóða góð kjör.

Frú forseti. Að lokum langar mig aðeins að ræða niðurfellingarnar, þ.e. hæstu umframgjöldin sem felld eru niður. Þar koma náttúrulega ekkert á óvart gamlir kunningjar eins og afskriftir skattkrafna, menn hafa sem sagt einfaldlega afskrifað meiri skattkröfur en áætlanir gerðu ráð fyrir og þar með eðlilegt að það sé svo fellt niður, sjúkratryggingarnar og lífeyristryggingarnar og þetta, þessir stóru óreglulegu liðir sem alltaf er erfitt að glíma við og áætla fyrir fram. Þeir fimm fjárlagaliðir sem hér er fjallað um sérstaklega í skýringum við 2. gr. frumvarpsins standa fyrir 88% af öllum niðurfelldum umframgjöldum.

En þá standa eftir 12% og mér telst svo til að það séu tæplega 1,2 milljarðar og ég spyr hvað þar sé stærst á ferðinni. Kann hæstv. ráðherra að skýra það? Ég spyr hreinskilnislega í tengslum við það sem ég sagði fyrr í ræðu minni um niðurfellingu slíkra skulda. Er inni í þessum tæpu 1,2 milljörðum sem út af standa, að frátöldum þessum fimm stóru liðum, verið að höggva skuldahala af einhverjum og er það eitthvað sem máli skiptir sem ástæða væri til að skoða? Ég bið hæstv. ráðherrann að upplýsa okkur um það.