145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

lokafjárlög 2014.

374. mál
[17:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur verið sem sneri að nokkrum hefðbundnum atriðum úr lokafjárlögum. Það er ekki óeðlilegt að einstaka stofnanir eins og Íbúðalánasjóður komi hér við sögu. Ég ætla að byrja á því að nefna niðurfellingu á uppsöfnuðum útgjöldum umfram heimildir sem réttilega var bent á að taka þurfi á, sérstaklega þegar um er að ræða uppsafnaðar heimildir sem orðnar eru allt að áratugsgamlar. Ég tek undir það. Ég hygg þó að Landspítalinn sé eina stóra einstaka dæmið sem við höfum úr seinni tíð þar sem gengið hafði verið út frá því í samskiptum við Landspítalann að ef menn gætu skilað spítalanum hallalausum í þrjú ár yrði skorið af uppsöfnuðum halla fyrri ára. Það var gert með því að taka 3/4 uppsafnaðs halla eftir að Landspítalinn hafði staðist fjárlög þrjú ár í röð.

Skoðun mín varðandi þau mál almennt er sú, og ég hef sett þá vinnu af stað í fjármálaráðuneytinu, að í raun ætti að vera til staðlaður samningur fyrir svona mál sem stæði þeim ríkisaðilum til boða sem eru í þessari stöðu um að standist menn fjárlög um eitthvert árabil, það gæti verið ágætt að miða við þrjú ár, verði uppsafnaður halli fyrri ára felldur niður samkvæmt viðmiðunarreglu, sem gæti verið á tveimur til þremur árum, jafnvel mætti gera það í einu skrefi ef ekki er um mjög háar fjárhæðir að ræða. Sá samningur væri gerður milli viðkomandi fagráðuneytis, stofnunar og fjármálaráðuneytisins. Þannig gætu stjórnendur viðkomandi stofnunar haft fast land undir fótum og það væri gegnsæi og samræmi í meðhöndlun sambærilegra mála með því að samningar í þessu efni væru staðlaðir. Það væri fyrirsjáanlegt hvernig við ætluðum í kerfinu að taka á uppsöfnuðum vanda fyrri ára. Ég tek heils hugar undir að það er ekkert unnið með því að láta stofnanir velta slíku á undan sér í allt of langan tíma. Það gefur ekki nægilega glögga mynd af stöðu mála hverju sinni að vera endalaust með gamla neikvæða stöðu í bókunum. En þó er rétt að benda á að það er jú ekki annað en neikvæð staða í bókunum og kemur ekki í veg fyrir að menn fái aðgang að fjárheimildum ársins hverju sinni. Það er fyrst og fremst eins og skuggi yfir starfseminni en lamar ekki starfsemina þó að bókfærð sé neikvæð staða vegna fyrri ára.

Þetta er það sem ég sæi fyrir mér að við mundum gera. Ég hef sett þá vinnu af stað í ráðuneytinu, að fá stöðlun á samningum fyrir ríkisaðila vegna þessara mála.

Varðandi Íbúðalánasjóð er réttilega búið að benda á það hér að sjóðnum eru viss mörk sett samkvæmt Evrópulöggjöfinni eða evrópskum reglum um ríkisaðstoð hvað varðar samkeppni á húsnæðislánamarkaði. Hér stöndum við frammi fyrir þeirri spurningu hvort eitthvað er unnið með því sérstaklega að sjóðurinn keppi áfram í almennum húsnæðislánum. Vegna ríkisábyrgðarinnar sérstaklega vil ég nefna að það er auðvitað stórmerkilegt að okkur skyldi takast að koma sjóðnum í þá stöðu, svona í neikvæðum skilningi, svo ég sé nú ekki misskilinn, þá var það eiginlega alveg ótrúlegt klúður að það skildi gerast að sjóður sem starfar undir vernd ríkisins með eins konar bakábyrgð þess og tekur eingöngu fyrsta veðrétt í fasteignum til tryggingar á lánum og lánar eingöngu upp að vissu hámarki, skyldi komast í þá stöðu að þurfa ríkisaðstoð upp á nokkra tugi milljarða. En eins og menn vita sem hafa kynnt sér þessa sögu var það safn af misvitrum ákvörðunum í gegnum tíðina sem leiddi til þessarar stöðu. Það var til dæmis stórtap á lánveitingum til leigufélaga, stórkostlegt tap af þeirri starfsemi, en það þótti nú mjög góð hugmynd á sínum tíma að nýta þessi hagstæðu lán til að fjölga leiguíbúðum. Á endanum var það þannig að sjóðurinn sat uppi með tóm, skuldmikil félög og hálfkláruð hús og af því hlaust milljarðatjón. Það var líka á sínum tíma galli á breytingum sem gerðar voru á starfsemi sjóðsins þegar hann breytti fjármögnun sinni og var útsettur fyrir uppgreiðsluvandanum. En auðvitað var til svar allan tímann við því hvað gera ætti ef menn vildu greiða upp lánin. Þá var búið að búa þannig um hnútana að ráðherrann átti alltaf þann kost að skella á háu uppgreiðslugjaldi, sem mundi annaðhvort jafna stöðu sjóðsins vegna uppgreiðsluáhættunnar eða forða því að margir kæmu í röðina til að losna undan viðskiptum við sjóðinn. Svo liðu árin og sú staða kom upp en aldrei var uppgreiðslugjaldið tekið upp vegna þess að það hefur eflaust þótt vera svo óvinsælt að banna fólki að koma í Íbúðalánasjóð og gera upp þessi hagstæðu lán. En sú furðulega staða var þá komin upp að viðskiptamenn vildu losna undan viðskiptum við sjóðinn sem komið var sérstaklega á fót til að bjóða bestu mögulegu lán. Viðskiptamennirnir vildu sem sagt leita annað vegna þess að þar var hægt að fá enn betri kjör. Menn létu hjá líða að taka upp uppgreiðslugjald sem hægt var að gera fyrir að minnsta kosti hluta þeirra lána sem voru þá útistandandi. Það var kannski ekki hægt vegna allra lánanna. En það hafði í för með sér viðbótartjón.

Ég ætla nú ekki að rekja alla þessa sögu en þetta er dæmi um mál þar sem menn þóttust hafa séð vandann fyrir og hvernig bregðast ætti við honum, en svo var það bara ekki gert þegar að því kom.

Hér hefur líka verið rætt um niðurfellingarnar. Ég er ekki með í kollinum niðurbrot á því smælki þegar frá eru talin stærstu atriðin sem eru á listanum yfir niðurfellingar, en ég hygg þó að þar sé ekkert eitt stórt markvert sem tengist uppsöfnuðum útgjöldum umfram heimildir frá fyrri árum heldur sé það miklu frekar ýmislegt smálegt.

Ég held að ég hafi brugðist við helstu spurningum sem til mín var beint vegna þessarar umræðu og læt máli mínu lokið.