145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

lokafjárlög 2014.

374. mál
[17:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Auðvitað er hægt að kynna sér það betur í gegnum umfjöllun fjárlaganefndar hvar þessir smælkisliðir liggja. Það eru ekki stórar fjárhæðir þar á ferð. En ég er áhugasamur um það, ekki síst út frá því sem hæstv. ráðherra nefndi réttilega, það er svo mikilvægt að eitthvert samræmi sé í þessu. Ég tek svo hjartanlega undir það að með að móta fastmótaða reglu, jafnvel hafa í boði staðlað samningsform sem aðilum bjóðist sem glíma við þennan vanda og vilja leggja á sig til að ná rekstrinum í plús í von um umbun síðar, að ljósið verði kveikt aftur og skugginn fari frá þeim, skuldahalinn sem þeir draga á eftir sér, jafnvel þó að hann liggi dauður og sé bara bókfærsla og ekki vaxtareiknaður eða neitt í þeim dúr.

Þetta hefur stundum ekki verið alveg svona skemmtilegt. Stutt er síðan til dæmis heilbrigðisstofnun þurfti örfáum sólarhringum áður en átti eiginlega að loka reikningunum hennar að biðja sérstaklega um að opnað yrði fyrir fjárheimildir vegna þess að hún lagði inn í árið með skuldahala sem ekki hafði verið tekinn til hliðar. Ég ætla ekki að nafngreina hana hennar vegna.

Að lokum aðeins um Íbúðalánasjóð. Segja má að sjóður með fyrsta veðrétt og þak á lánveitingum og ríkið að bakhjarli hefði ekki átt að geta lent í svona vandræðum. En margar samverkandi ástæður eru fyrir því. Hrunið sjálft er auðvitað ein þeirra, mistök sem gerð voru áður og svo það sem sjóðnum var uppálagt að gera og taka á sig með. Það má því líka alveg eins segja að það sé kannski ekkert óskaplega stór hluti reikningsins fyrir allan hrunkostnaðinn og allt það þó að ríkið hafi þurft að leggja sjóðnum eigið fé af þessari stærðargráðu borið saman við risavaxna (Forseti hringir.) banka og ýmsar aðrar fjármálastofnanir sem lentu ekki bara í smá vandræðum og þurftu aukið eigið fé heldur fóru bara lóðbeint á hausinn.