145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

fasteignalán til neytenda.

383. mál
[18:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um fasteignalán til neytenda. Frumvarpið er á þskj. 519 og er 383. mál þingsins. Með frumvarpinu er lagt til að sérlög gildi um veitingu fasteignalána til neytenda, en frá árinu 2001 hafa fasteignalán til neytenda fallið undir gildissvið laga um neytendalán. Verði frumvarpið að lögum færast fasteignalán til neytenda frá innanríkisráðherra til fjármála- og efnahagsráðherra til samræmis við forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna, nr. 71/2013.

Markmið frumvarpsins er tvíþætt, annars vegar að tryggja neytendavernd við kynningu, ráðgjöf, veitingu og miðlun fasteignalána til neytenda og hins vegar að stuðla að ábyrgum lánveitingum og sporna gegn óhóflegri skuldsetningu neytenda.

Helstu breytingar frá gildandi rétti eru eftirfarandi:

1. Gerð er almenn krafa um að starfskjör starfsmanna lánveitenda og lánamiðlara hafi ekki áhrif á hæfi þeirra til að stunda góða viðskiptahætti, þ.e. að uppbygging starfskjara samræmist þeirri almennu aðgæsluskyldu sem lögð verður á lánveitendur og lánamiðlara um að starfskjör starfsfólks þeirra séu ekki líkleg til að skapa freistnivanda eða hagsmunaárekstra. Þessari almennu kröfu til viðbótar er gerð sértæk krafa um að starfskjör starfsfólks lánveitenda sem framkvæma lánshæfis- og greiðslumat séu ekki árangurstengd.

2. Gerðar eru kröfur um hæfni og þekkingu starfsfólks lánveitenda og lánamiðlara. Lagt er til að fram til 21. mars 2019 verði heimilt að horfa eingöngu til reynslu viðkomandi starfsmanns við mat á þekkingu og hæfni svo lánveitendum gefist svigrúm til að uppfylla þessar nýju kröfur.

3. Kveðið er á um að óheimilt sé að binda samning um fasteignalán eða lánstilboð því skilyrði að neytandi geri samning um kaup á annarri aðgreindri fjármálaafurð eða fjármálaþjónustu. Lánveitanda verður eftir sem áður heimilt að bjóða fasteignalán þar sem neytandi á kost á að gera um leið samning um kaup á annarri aðgreindri fjármálaafurð eða fjármálaþjónustu.

4. Lögð er aukin áhersla á hvernig beri að útskýra þá samninga um fasteignalán sem boðnir eru, enda skiptir afar miklu máli að neytendur fái réttar og góðar útskýringar á helstu efnisatriðum mismunandi tegunda lána svo þeir geti áttað sig á hvað hentar best miðað við aðstæður þeirra.

5. Fjallað er sérstaklega um hvernig lánaráðgjöf skuli fara fram og skýrar skilið á milli lánaráðgjafar og upplýsingagjafar um lánaframboð. Áður en lánaráðgjöf er veitt þarf lánaráðgjafi að upplýsa um hvort ráðgjöfin miðist við lánaframboð á markaði eða lánaframboð ákveðins lánveitanda. Jafnframt þarf hann að upplýsa um fjárhæð þóknunar. Lánaráðgjafa er óheimilt að kalla sig óháðan nema ráðgjöfin miðist við lánaframboð á markaði og hann þiggi ekki greiðslur frá lánveitanda, einum eða fleiri, vegna ráðgjafarinnar.

6. Gerð er krafa um að lánamiðlarar skrái sig hjá Fjármálaeftirlitinu áður en þeim er heimilt að veita þjónustu. Lánamiðlurum er jafnframt gert skylt að eiga aðild að úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Gert er ráð fyrir að þessar kröfur hafi óveruleg áhrif hér á landi, enda þekkist lánamiðlun nánast ekki á markaði fyrir fasteignalán. Með lánamiðlun er átt við þjónustu í atvinnuskyni gegn fjárhagslegum ávinningi sem veitt er af aðila sem starfar ekki sem lánveitandi, sem felur í sér kynningu eða boð til neytanda á fasteignaláni, aðstoð við neytanda með því að taka að sér undirbúningsvinnu vegna samnings um fasteignalán eða það að gera samning um fasteignalán við neytanda fyrir hönd lánveitanda.

7. Lögð eru til sérákvæði vegna lána sem tengjast erlendum gjaldmiðlum. Þetta atriði tengist frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu þar sem lagt er til að opnað verði á ný fyrir veitingu gengistryggðra lána. Í frumvarpi þessu er lagt til að neytandi þurfi að uppfylla strangari skilyrði við greiðslumat fasteignaláns sem tengist erlendum gjaldmiðlum en vegna fasteignalána almennt. Jafnframt er lagt til að neytandi, sem óvarinn er fyrir gjaldeyrisáhættu, eigi rétt á að breyta eftirstöðvum láns sem tengist erlendum gjaldmiðlum í annan gjaldmiðil að vissum skilyrðum uppfylltum.

8. Lagt er til að lánveitandi geti á grundvelli frekari upplýsinga frá neytanda fallist á að veita lán þrátt fyrir neikvæða niðurstöðu greiðslumats, enda sýni þær fram á að líklegt sé að neytandi geti staðið í skilum með lánið. Lánveitandi skal skjalfesta rökstuðning fyrir þessari ákvörðun, útskýra hana fyrir neytanda og varðveita gögn henni til stuðnings. Sem dæmi um tilvik þar sem lánveitandi gæti talið ástæðu til að veita lán þrátt fyrir neikvætt greiðslumat er ef neytandi hefur haft takmarkaðar tekjur tímabundið, svo sem vegna fæðingarorlofs, náms eða árstíðabundinna verkefna. Einnig væri óeðlilegt ef lánveitandi yrði að neita neytanda um endurfjármögnun fasteignaláns vegna neikvæðs greiðslumats í þeim tilvikum þegar neytandi getur sýnt fram á greiðslusögu sem sýnir að hann ræður við reglulegar endurgreiðslur fasteignalánsins. Lánveitandi getur í dag veitt fasteignalán þrátt fyrir neikvæða niðurstöðu greiðslumats að því eina skilyrði uppfylltu að virði veða eða annarra trygginga sem lántaki leggur fram sé meira á þeim tíma þegar lánið er veitt en heildarfjárhæð láns enda sé lántaki upplýstur um mat lánveitanda.

9. Lagt er til að Fjármálaeftirlitinu verði veitt heimild til beitingar sérstaks þjóðhagsvarúðartækis í formi reglna um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda. Eftirlitinu verði heimilt að setja reglurnar að fengnum tilmælum frá fjármálastöðugleikaráði. Hámarkið getur numið 60–90% og getur verið mismunandi eftir tegundum lána og hópum neytenda. Í reglunum skal vera aukið svigrúm vegna kaupa á fyrstu fasteign.

10. Lagt er til að hlutfallslegu hámarki uppgreiðslugjalds verði breytt úr 1% af fjárhæð endurgreiðslu í 0,2% af fjárhæð endurgreiðslu fyrir hvert heilt ár sem eftir stendur af binditíma vaxta. Með þessu er ætlunin að stuðla að auknu framboði lána með föstum vöxtum, sér í lagi á óverðtryggðum lánum.

11. Lagt er til að ákveðin úrræði verði lögfest hvað varðar lausnir til handa neytendum, bæði áður og eftir að fasteign er sett á nauðungarsölu. Hér er annars vegar lagt til að áður en lánveitandi krefst nauðungarsölu á grundvelli samnings um fasteignalán sé neytanda veitt færi á að óska eftir úrræðum sem gætu leyst greiðsluvanda hans, svo sem endurfjármögnun eða skilmálabreytingu. Hins vegar er lagt til að ef fasteign sem lögð var fram sem trygging fyrir fasteignaláni er seld á uppboði og uppgjörið hrekkur ekki til fyrir eftirstöðvum fasteignalánsins skuli lánveitandi bjóða neytanda upp á samkomulag um greiðslur á eftirstöðvum lánsins sem tekur mið af greiðslugetu hans. Vert er að taka fram að ekki er um verulega breytingu að ræða frá núverandi markaðsframkvæmd.

12. Lagt er til að Neytendastofu verði falið almennt eftirlit með ákvæðum frumvarpsins en Fjármálaeftirlitinu sértækt eftirlit með ákvæðum frumvarpsins, um starfskjör, þekkingar- og hæfniskröfur, veðsetningarhlutföll og með starfsskilyrðum lánveitenda og lánamiðlara.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að aflokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. í þinginu.