145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

fasteignalán til neytenda.

383. mál
[18:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna og það er gott að fá þetta mál fram. Það er eiginlega tvennt sem mig langar að gera að umtalsefni og spyrja hæstv. ráðherra nánar út í. Annars vegar er það sem kom fram um gerð greiðslumats og svo það sé skýrt þá er gert ráð fyrir því að þótt niðurstöður greiðslumats geti verið neikvæðar er ætlunin að taka tillit til þess ef lántakandi hefur greiðslusögu sem sýnir að hann standi undir afborgunum. Við sem erum á þingi heyrum talsvert um það að fólkið sem er á leigumarkaðnum og borgar himinháa leigu fær eigi að síður ekki greiðslumat upp á afborganir sem eru jafnvel lægri en sú leiga sem það hefur þegar staðið í skilum með. Ég velti því fyrir mér hvort það þurfi að orða þetta með skýrari hætti í frumvarpinu sjálfu en það kom þó fram hjá hæstv. ráðherra þannig að mig langar að biðja hann um að skýra þetta nánar fyrir okkur.

Hins vegar er ég með aðra fyrirspurn sem varðar veðsetningarhlutföllin. Í frumvarpinu er lagt til að Fjármálaeftirlitið fái heimild til að setja þak á veðsetningarhlutföll og er vitnað til reynslu annarra landa. Ég tel að þetta þurfi að skoða vel. Það er talað um þak upp á 60–90% sem er auðvitað breitt bil. Í greinargerð er tafla sem sýnir veðsetningarhlutfall með viðbótarlánum og það er ansi hátt og þetta eru núverandi veðsetningarhlutföll. Með viðbótarlánum eru veðsetningarhlutföllin í 85–90%.

Mig langar að spyrja: Er ætlunin að setja slíkt þak á fasteignalán með viðbótarlánum? Hæstv. ráðherra nefndi það að sérstök ákvæði mundu eiga við um þá sem væru að kaupa sína fyrstu eign og mig langar að spyrja líka: Erum við með gögn um það hvernig veðsetningarhlutföllin sem birtast hér á blaðsíðu 37 í greinargerðinni skiptast á milli þeirra sem eru með lán af sinni fyrstu eign og annarra? Það væri hjálplegt að átta okkur á þeim mun.