145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

fasteignalán til neytenda.

383. mál
[18:13]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er margt áhugavert sem kemur fram í greinargerðinni með frumvarpinu og mig langar í seinna andsvari að spyrja sérstaklega út í fasteignalánin. Hér kemur fram að óverðtryggðar skuldir eru núna um 14% af fasteignaskuldum heimila. Löng verðtryggð lán eru enn vinsælasta lánaformið þar sem greiðslubyrðin af þeim er lægst, eðlilega, því að þessi löngu 40 ára verðtryggðu lán hafa nýst þeim sem lægstar hafa tekjurnar til þess að koma sér þó þaki yfir höfuðið.

Hér kemur fram að 50% nýrra lánveitinga innlánsstofnana til fasteignakaupa séu verðtryggð sem er samt lækkandi hlutfall. Telur hæstv. ráðherra raunhæft að ráðast í þær aðgerðir sem hér voru einhvern tímann boðaðar í tengslum við margboðað afnám verðtryggingar, sem eru að banna lánaflokk 40 ára verðtryggðra lána? Mig langar bara aðeins að spyrja, ég veit að mínúta er stuttur tími til að svara þessu en mér finnst þetta áhugaverðar tölur sem koma fram í greinargerðinni.