145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

fasteignalán til neytenda.

383. mál
[18:16]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er áríðandi frumvarp sem hér liggur fyrir og efnismikið. Kannski er það svolítið yfirborðslegt sem maður nefnir í 1. umr. en ég vil segja í tilefni af síðustu orðum hæstv. ráðherra að auðvitað hefur greiðslumatið og þessi 40 ára lán verið erfið að því leytinu til, eins og hæstv. ráðherra sagði, að fólk gerði sér ekki alveg fyrir því hvernig þau virkuðu. Þess vegna fagna ég því að verið sé að skoða það einmitt í því samhengi sem hæstv. ráðherra talaði um, vegna þess að sérstaklega fyrir þá sem hafa lægri tekjur og fyrir ungt fólk getur þetta verið eina leiðin til að fjárfesta, þ.e. að fjárfesta í þessum 40 ára lánum vegna þess að þar er greiðslubyrðin hugsanlega viðráðanleg, ef það má tala um það. Þetta er mikið mál.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra. Hann talar um almenn starfskjör og almenn starfskjör þeirra sem vinna við þessar stofnanir og segir að þau verði að samræma og stuðla að traustri og skilvirkari áhættustýringu. Ég skil þetta þannig, ef ég segi það bara á mannamáli, að þetta þýði að fólk sem starfar í þessum deildum í bönkum mætti til dæmis ekki fá neina bónusa. Ég skil það þannig. Getur ráðherrann staðfest að sá skilningur minn á skilyrðum um starfskjör sé réttur?