145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

fasteignalán til neytenda.

383. mál
[18:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi 40 ára lánin má segja að miðað við þá vexti sem við höfum búið við undanfarin ár sjái menn ekki nokkra einustu lækkun á höfuðstól lánsins fyrr en eftir að minnsta kosti hálfan lánstímann. Við þekkjum öll sem höfum verið í stjórnmálum að fólk kemur reglulega til okkar og ræðir vexti og verðtryggingu og rekur dæmi þess að það hafi staðið í skilum með skilvísi í svo og svo mörg ár en höfuðstóllinn hafi ekkert lækkað. Þegar betur er að gáð þá átti það að liggja fyrir þegar lánið var tekið samkvæmt áætlun um einstaka greiðslur þetta langt fram í tímann. Þar fyrir utan má segja að óverðtryggð lán hafi marga aðra kosti umfram verðtryggðu lánin, eins og t.d. þann að þau leiða til þess að vaxtastýringatæki Seðlabankans hefur meiri virkni. Ef okkur tækist nú að bæta umhverfið, eins og við höfum svo oft verið að ræða í þessum þingsal, í þá átt að vextir mundu lækka og við gætum skapað umhverfi fyrir fasta vexti, óverðtryggða til lengri tíma, þá held ég að það væri fyrir alla mun ákjósanlegra umhverfi til lántöku en það sem við erum að ræða, 40 ára jafngreiðslulán verðtryggð. Það var spurt um starfskjörin og, já, það er réttur skilningur að þeir sem taka ákvörðun um lánveitingu eiga samkvæmt frumvarpinu ekki að vera á afkastahvetjandi starfskjörum eins og þeim sem hér var vísað til.