145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

fasteignalán til neytenda.

383. mál
[18:26]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem að hlýtur að vekja athygli er að hér sé ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Framsóknarflokksins að leggja fram nýjan lagaramma um fasteignalán, verðtryggð, til íslenskra neytenda. Látum vera að flokkurinn hafi ekki getað undið ofan af því sem var, en að hann skuli beita sér fyrir nýrri löggjöf um verðtryggð íbúðalán er auðvitað eftirtektarvert og ekki síður þegar verið er að leyfa í raun og veru fleiri form verðtryggingar, þ.e. gengistrygginguna sem menn töldu almennt að slæm reynsla væri af. Talandi um það þá hefur verið spurt um 40 ára verðtryggðu lánin, sem ríkisstjórnin hefur boðað í eitt og hálft ár að ætti að afnema með lögum og ráðherrann hefur haft á málaskrá sinni ef ég hef tekið rétt eftir. Nú er orðið hálft annað ár liðið og ég hlýt að spyrja hvers vegna það sé ekki hluti af þessu máli, að taka fyrir þau lán. Er ekki einboðið fyrir formann efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Frosta Sigurjónsson, að nýta tækifærið og breyta málinu í meðförum (Forseti hringir.) og uppfylla þetta samkomulag stjórnarflokkana að banna 40 ára lánin?