145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

384. mál
[18:34]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hæstv. ráðherrann sagði þá er líka komið inn á greiðslumat varðandi erlend lán, sem felst í breytingum á greiðslumati í frumvarpinu sem við ræddum hér áðan. Þessi lög þarf að setja vegna þess að ESA hefur sagt að ekki sé hægt að banna gengistryggð lán í landinu. Nú er lagt til að þeir sem hafa tekjur í erlendri mynt eða geta einhvern veginn tryggt sig geti hugsanlega fengið gengistryggð lán eða erlend lán á miklu lægri vöxtum en við hin.

Virðulegi forseti. Hinn ónýti gjaldmiðill kristallast í þessu frumvarpi og verður til þess að tvær þjóðir verða í þessu landi, annars vegar þeir sem geta reitt sig á erlendar tekjur — við vitum að sum fyrirtæki gera meira að segja upp í erlendri mynt — og geta tekið lán á lægri vöxtum en allir aðrir. Menn segja: Við viljum hafa hér óverðtryggða vexti og bjóða fólki upp á 7% vexti. Hver getur staðið undir því?

Virðulegi forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra: Þýðir þetta ekki einfaldlega að þetta verður land tveggja þjóða, þeirra sem geta verið með erlendan gjaldeyri og svo okkar hinna sem erum með íslensku krónuna?