145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

384. mál
[18:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel reyndar að þetta sé nú ekki alveg svona flókið. Mig grunar að þeir sem sækjast eftir því að taka erlend lán í fjármálakerfinu í dag, þar sem lög eru því ekki mjög til fyrirstöðu, þurfi að sýna fram á að þeir hafi raunverulega endurgreiðslugetu, að bankarnir hafi lært það af áföllum undanfarinna ára að það borgi sig ekki að vera með óhindraðan aðgang að erlendum lántökum jafnvel þótt menn standist greiðslumat miðað við íslensku krónuna við slíkar lántökur. Ég ítreka enn það sem ég nefndi áðan um hversu mikil áhætta getur verið fólgin í því að taka lán og vera á sama tíma óvarinn. Bankarnir lentu sjálfir í greiðsluþroti vegna slíkrar stöðu og einnig fjölmargir viðskiptavinir þeirra. Það er engu að síður svo að það getur verið fróðlegt að afla upplýsinga um það hversu hátt hlutfall landsmanna þiggur laun í erlendum gjaldmiðlum. Ég tel að það sé einungis mjög lítið brot. En við skulum ekki gleyma því að það er ekki eina skilyrðið fyrir því að geta fengið lán að hafa tekjur í erlendum gjaldmiðli. Það er líka hægt að uppfylla skilyrði þess að fá slík lán samkvæmt frumvarpinu með því að sýna fram á að maður geti staðist verulega miklar gengissveiflur eða mikla hækkun vaxta og eins ef aðrar fullnægjandi tryggingar eru lagðar fram.

Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að við ættum að byrja með það prinsipp að fólk eigi að fá að ráða sér sjálft. En síðan þurfum við að skoða þjóðhagsvarúðarreglur, hvað við þurfum að setja í regluverkið hjá okkur til þess að verja hagsmuni heildarinnar. Segja má að þau tæki sem falin eru Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum í þessum tveimur frumvörpum séu af þeim toga, og eins aðrar hindranir í frumvarpinu sjálfu sem beint eru festar í lög. Síðan þurfum við jafnframt að horfa til neytendasjónarmiða, að gætt sé að góðri upplýsingagjöf og vandvirkni (Forseti hringir.) við lánveitingar af þessum toga.