145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

384. mál
[18:50]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hérna upp til að rifja það upp að á síðasta þingi var keimlíkt mál og urðu miklar umræður um það hvort óhætt væri að opna á óvarðar lántökur samkvæmt þessu.

Ég er sammála því markmiði þessa frumvarps að bregðast við ábendingum Eftirlitsstofnunar EFTA um að bannið samrýmist ekki meginreglu EES-samningsins um frjálst fjármagnsflæði. Við því þarf að bregðast og afnema hið fortakslausa bann gegn gengistryggðum lánum og um leið nota tækifærið til þess að bregðast við því að hér eru kannski ekki nægilega viðamiklar reglur um veitingu gjaldeyrislána sem hafa verið heimil og lítið samræmi í því að leyfa gjaldeyrislán en banna síðan gengistryggð lán. Í eðli sínu er áhættan svipuð, alla vega fyrir lántakann, fyrir þann lántaka sem hvorki hefur tekjur né eignir í erlendum gjaldmiðli að taka lán í erlendum gjaldmiðli og gengistryggt lán, það er svipuð áhætta.

Það sem hefur breyst og skiptir miklu máli að mínu mati kemur fram í II. kafla frumvarpsins, þ.e. breytingin sem verður á lögum um Seðlabanka Íslands þar sem Seðlabanka Íslands eru fengnar heimildir til þess að setja lánastofnunum reglur um hámark á útlánum tengdum erlendum gjaldmiðlum til aðila sem ekki eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu.

Það er mjög mikilvægt að þetta sé túlkað þannig að Seðlabankinn geti gripið strax til setningar slíkra reglna en þurfi ekki að bíða þar til vandinn er orðinn óviðráðanlegur. Má rifja upp, eins og kemur fram í greinargerðinni, að í lok september 2008 voru lán til einstaklinga sem tengd voru erlendum gjaldmiðli orðin 320 milljarðar eða 17% af heildarskuldum einstaklinga og einnig voru sveitarfélög farin að taka mikið af óvörðum lánum í erlendum myntum eða tengdum erlendum gjaldmiðlum. Það sem gerist við það að íslenskan krónan lækkar, sem getur gerst og hefur gerst, er að þá geta þessir lántakar orðið fyrir mjög miklum skakkaföllum og þess vegna er mikilvægt að byrgja brunninn áður en menn falla í hann.

Í þeim kafla sem snýr að neytendalánunum, þetta er í 8. gr. frumvarpsins, er stungið upp á nýrri 10. gr. a sem kemur á eftir 10. gr. laganna. Þar eru sett nokkur skilyrði fyrir því varðandi greiðslumat fasteignalána sem tengjast erlendum gjaldmiðlum: Lánveitandi skal aðeins veita lán tengd erlendum gjaldmiðlum til neytanda sem hefur nægilegar tekjur í þeim gjaldmiðli sem lánið tengist til þess að standast greiðslumat. Þetta er eðlilegt skilyrði og ætti ekki að skapa mikla hættu.

Svo kemur b-liðurinn: Eða hefur staðist greiðslumat í krónum þar sem gert er ráð fyrir verulegum gengisbreytingum og verulegum hækkunum á vöxtum. Vandinn við þetta ákvæði b-liðar er að það opnar á óvarðar lántökur í sjálfu sér. Þar skiptir þá mjög miklu máli að fjármálastofnanir og Seðlabankinn stilli hlutina þannig að hinn sanni kostnaður af því að taka slíkt lán sé borinn af lántakandanum en ekki samfélaginu.

Til þess ættu að vera til leiðir vegna þess að annars er hætt við því að ákveðinn hópur sem nýtir sér þetta og vill kannski skjóta sér undan stýrivöxtunum sem hér eru allt að sliga, ákveðinn vel stæður hópur sem gæti staðist slíkt greiðslumat vegna þess að hann hefur miklar tekjur í krónum eða eignir í krónum, freistist til að taka þarna gengisáhættu til þess að komast í lægri vexti. Í fyrsta lagi grefur það undan miðlun peningastefnunnar sem annars mundi líka hafa haft áhrif á þennan hóp. Það getur þýtt að stýrivextirnir þurfi að vera hærri á hina sem eftir eru og ekki hafa haft tækifæri til að taka slík lán.

Síðan er það að einhvern tíma kemur að því að Seðlabankinn segir að nú sé þetta orðið of mikið, þarna séu komnir of margir milljarðar og þá er einhver hópur sem hefur verið fyrstur kemur fyrstur fær og er þá í annarri stöðu en hinir. Það er ákveðin mismunun í þessu. Svo hafa menn bent á að það getur verið að þarna sé verið að mismuna fólki almennt eftir tekjum og stöðu.

Varðandi c-liðinn er þar gerð krafa um að menn leggi fram viðeigandi fjárhagslegar tryggingar sem eyða gjaldeyrisáhættunni algjörlega, og það er alveg ásættanlegt.

Það er aðallega b-liðurinn sem opnar á óvarða lántöku og ég held að það sé ekki krafa ESA að það séu leyfðar óvarðar lántökur. ESA segir aðeins að hið fortakslausa bann skuli afnumið. Okkur er því alveg í lófa lagið að setja reglur sem eru skynsamlegar og það getur verið skynsamleg regla að þær séu heimilar öllum þeim sem eru sannanlega með tekjur eða eignir eða bæði. Þá getur það alveg verið eðlilegt í sjálfu sér.

Það sem vantar síðan og þarf að ræða líka er hvað gerist ef til dæmis einhver sem hafði nægilegar tekjur í viðkomandi gjaldmiðli lendir í því að missa þessar tekjur og er ekki lengur varinn, er allt í einu orðinn óvarinn en skuldar mjög mikið og er með eitthvert lán sem tengist gjaldmiðli. Þá þarf að vera einhver útgönguleið. Sú útgönguleið getur einfaldlega verið að ef sú staða kemur upp að viðkomandi stenst ekki lengur greiðslumat þá geti hann greitt lánið upp á þeim tíma sem það verður ljóst. Þeir sem tala gegn því segja að þá yrði lánið dýrt vegna þess að fjármálastofnunin mundi vilja geta tryggt sig gegn þessu, en það er í rauninni jákvætt vegna þess að þá færu menn að átta sig, þá fer lántakinn að bera í raun þann kostnað sem fylgir því að taka lán í erlendum gjaldmiðli.

Það er margt í þessu sem á eftir að skoða. Varðandi gildistöku þessara laga er lagt til að þau taki þegar gildi, en það er ljóst að í lögunum sem við vorum að ræða áðan um fasteignalán er sambærileg grein, 21. gr. þeirra laga ef ég man rétt, sem fjallar um hvernig skuli fara með, og þar er reyndar rætt töluvert um hvernig skuli bregðast við ef aðstæður breytast og menn vilja losna út úr stöðu, eru kannski komnir í óvarða stöðu. Það er eitthvað sem við í efnahags- og viðskiptanefnd þurfum að skoða mjög vandlega.

Ég ætlaði ekki að lengja þessa umræðu mjög mikið. Nefndin á eftir að fjalla um þetta mál og fá á því ítarlega kynningu og margar umsagnir og ég á von á því að við munum taka góðan tíma í að skoða málið. Þó að ESA reki vissulega á eftir held ég að óþreyjan sé ekki það mikil að þingið geti ekki unnið vandaða vinnu í málinu. Ég held að það hljóti að vera skilningur á því að við þurfum að vera viss um að við vöndum (Gripið fram í.) okkur þegar við förum að opna á þessi gengistryggðu lán aftur og gera þau lögmæt. Við þurfum að sjá til til þess í fyrsta lagi að ekki safnist upp kerfisvandi sem eykur áhættu í kerfinu, að ekki verði mismunun og að brugðist verði við því þegar staða þeirra breytist sem þá voru taldir varðir lántakendur, og margt fleira þurfum við að skoða.