145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

384. mál
[18:58]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum ræðu sína. Ég held að full ástæða sé til þess fyrir hann og nefndina að fara vel yfir þau álitamál sem tengjast gengistryggðu lánunum sem reyndust okkur ákaflega ófarsæl hér í hruninu.

Ég vildi inna þingmanninn eftir því, vegna þess að hér er verið að opna lögin um vexti og verðtryggingu, sem er einmitt lagabálkur sem Framsóknarflokknum hefur verið hugleikinn, hvort hér gefist flokknum ekki kjörið tækifæri til þess að koma inn með þær lagabreytingartillögur sem flokkurinn hefur talað fyrir og boðað, og raunar lofað, um afnám verðtryggingar.

Þetta er nákvæmlega lagabálkurinn þar sem verðtryggingin er skrifuð inn. Ef menn vilja skrifa hana út úr íslenska lagasafninu þá er það þessi löggjöf, og þá væntanlega breytingartillögur sem kæmu hér fram fyrir 2. umr. um frumvarpið, sem gætu orðið til þess að takmarka verðtrygginguna eða banna hana til framtíðar, eða hvað það nú er sem Framsóknarflokkurinn hyggst gera í þessu stærsta kosningaloforði sínu frá síðustu kosningum.

Ég spyr einfaldlega: Ætlar þingmaðurinn að nota tækifærið núna, þegar löggjöfin er opin og hann hefur stjórn á meðferð málsins hér í þinginu sem formaður nefndarinnar, til að setja inn í þetta mál þau ákvæði sem lúta að banni við verðtryggingu á lánum til einstaklinga?