145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

lækkun útvarpsgjalds.

[10:35]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og vil segja í upphafi máls míns að ég hef nú þegar lagt fyrir ríkisstjórnina frumvarp þess efnis að lækkun gjaldsins verði frestað. Einnig eru í því frumvarpi ákvæði sem snúa að frestun á skilyrðum sem sett verða um Ríkisútvarpið hvað varða stofnun dótturfélaga. Ég veit að hv. þingmaður þekkir til þess máls. Það verður verulega útgjaldaaukandi ef ekki verður frestun á. Það mál er sem sagt á vettvangi ríkisstjórnarinnar og ég vonast til þess að hægt verði að afgreiða það út úr ríkisstjórninni sem fyrst, en málið er þar.

Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir hér, Ríkisútvarpið hefur náð verulegum árangri hvað varðar reksturinn. Það kemur fram í þeirri skýrslu sem hefur verið nefnd eftir formanni nefndarinnar sem gerði úttekt á rekstrarstöðu Ríkisútvarpsins, svokallaðri Eyþórsskýrslu, að á undanförnum mánuðum hefur náðst markverður árangur í því að skera niður kostnað hjá Ríkisútvarpinu. Ef ég man rétt er það á síðustu 12 mánuðum um 5% lækkun á rekstrarkostnaði sem er vel að verki staðið. Það skiptir einmitt máli að Ríkisútvarpið leigir frá sér það húsnæði sem ekki er verið að nota. Það skiptir máli að hafa komið byggingarréttinum í verð. Allt eru þetta merki þess að stjórn Ríkisútvarpsins og forustumenn þess taka það mjög alvarlega að ná tökum á rekstri stofnunarinnar. Rekstrarvandinn er ærinn eins og kom fram í þeirri skýrslu sem við höfum rætt hér í þinginu, m.a. vegna þess að kostnaður við dreifikerfi Ríkisútvarpsins var miklu meiri en ætlað var, en um það voru teknar ákvarðanir í byrjun árs 2013. Það hefur síðan sýnt sig að kostnaðurinn hefur orðið umtalsvert meiri en ætlað var. Eins hafa launahækkanir verið umfram það sem talið var að yrði þannig að Ríkisútvarpið (Forseti hringir.) stendur frammi fyrir verulegum áskorunum í rekstri sínum.