145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

afturvirkar hækkanir til aldraðra og öryrkja.

[10:44]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég var ekki að spyrja hæstv. forsætisráðherra um eitthvað í framtíðinni eða á næsta kjörtímabili. Ég er að spyrja forsætisráðherrann um yfirstandandi ár. Árið 2015.

Eiga þessir fjölmennu hópar, og spurningin er ekki flókin hæstv. forsætisráðherra, að fá kauphækkanir á sama tíma og við, þú og ég, frá vorinu síðastliðnu, leiðréttingu aftur í tímann? Eða ætlar forsætisráðherra að láta það viðgangast að þessir hópar fari lakar út úr árinu 2015 sem nú er að líða en flestallir aðrir hópar í landinu? Er það bara útfærsluatriði hvort tugþúsundir manna hækka minna en aðrir í landinu árið 2015 og það einmitt þeir hópar sem búa við lökustu kjörin?

Nei, virðulegur forsætisráðherra. Það er réttlætismál að þeir sem lægst hafa launin, aldraðir og öryrkjar, (Forseti hringir.) fái að minnsta kosti sömu hækkanir núna á þessu ári og við hin.