145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá.

[10:47]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég verð eiginlega að byrja á að lýsa yfir vonbrigðum mínum með að hæstv. forsætisráðherra svaraði ekki hv. þm. Helga Hjörvar áðan. Mér finnst mjög mikilvægt að tryggja hreint og beint núna í fjárlögum fé til þeirra hópa sem búa við þannig kjör að þeir ná aldrei endum saman. Bréfin frá þeim nísta mig í hjartað. Mánuðurinn fram undan er öryrkjum og öldruðum mjög þungur í skauti, þeim hópum sem þurfa stuðning frá Tryggingastofnun. Ég verð bara að segja að ég vona að þingmenn hafi dug í sér til að tryggja að hækkanirnar verði afturvirkar eins og okkar. Af hverju er þetta svona flókið? Það var ekki flókið þegar okkar laun voru hækkuð eða launa annarra. Ég veit að það koma engin skýr svör frá forsætisráðherra varðandi þetta mál en það er okkar þingmanna að tryggja að svo verði.

Fyrirspurn mín til hæstv. forsætisráðherra lýtur að dagsetningum í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá. Ég hef reiknað það út að eina leiðin til að hægt verði að framkvæma atkvæðagreiðsluna samhliða forsetakosningum sé að þingið afgreiði málið frá sér 24. desember. Mig langar því að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann hafi ekki hug á því að vera að störfum á þinginu með okkur hinum þangað til hægt er að afgreiða málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það má segja að gjörningur hæstv. forsætisráðherra til að tryggja að fundum nefndar sem starfar við breytingar á stjórnarskrá væri ítrekað frestað með einhverjum gervifundi sem aldrei hefur orðið hafi orðið til þess að það er nánast ómögulegt að gera þetta samhliða forsetakosningum.