145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá.

[10:49]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Mér hefur heyrst það vera mat margra, ekki bara hv. fyrirspyrjanda, að það sé hæpið að ná að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna samhliða forsetakosningum. Það er í sjálfu sér ekki alslæmt að menn gefi sér þann tíma sem þarf til að vinna þessar tillögur almennilega og haldi þá sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál. Á það hefur verið bent að það hafi ýmsa galla í för með sér að gera þetta samhliða forsetakosningum svoleiðis að það er ekkert endilega slæmt að halda sérstaka atkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskránni. Það ætti jafnvel að vera fagnaðarefni að mati hv. fyrirspyrjanda sem ég veit að er mikill áhugamaður um stjórnarskrárbreytingar.

Ég skildi ekki alveg hvað hv. þingmaður var að fara með athugasemdum um frestanir funda í stjórnarskrárnefnd. Ég boða ekki fundi í þeirri nefnd, stýri ekki fundum þeirrar nefndar og hef ekki sótt einn einasta af þeim fundum. Það væri hins vegar mjög gagnlegt fyrir þetta ferli allt saman og fróðlegt að vita, fyrir mig og þá sem koma að þessari vinnu fyrir hönd hinna ýmsu flokka á Alþingi, hvort hv. þingmaður og flokkur hennar eru orðin fráhverf því uppleggi sem lagt var af stað með, að menn næðu samstöðu um breytingar á stjórnarskrá. Ekki alls fyrir löngu spurði hv. þingmaður mig á þessum sama vettvangi hvort tillögur um breytingar á stjórnarskrá yrðu ekki örugglega ríkisstjórnarmál. Þar kvað við algjörlega nýjan tón miðað við það sem lagt var upp með þegar þessi vinna fór af stað þar sem tilgangurinn með þessu samráði var að stilla saman strengi, ná fram sameiginlegri niðurstöðu flokkanna í þinginu svoleiðis að menn gætu farið í þessar breytingar í sátt, myndað um það breiða samstöðu á Alþingi með hvaða hætti væri æskilegast að breyta stjórnarskránni.