145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

upphæð veiðigjalds.

[10:53]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Í frumvarpi til fjárlaga 2016 er veiðigjaldið samkvæmt áætlun hjá fjármálaráðuneytinu sett í 5 milljarða og 322 millj. kr. á þessu ári.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig standi á því að þetta gjald sé í sögulegu lágmarki samkvæmt áætlun fjármálaráðuneytisins þegar, eins og hann veit mætavel, sjávarútvegurinn er í blússandi uppsiglingu. Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja var 43 milljarðar í fyrra. Fyrirtækin greiddu sjálfum sér 13,5 milljarða kr. í arð í fyrra. Er þá eðlilegt að arðurinn til þjóðarinnar sé í raun 0 kr.? Eins og við vitum þá fer heilmikið frá ríkinu í sjávarútveginn sjálfan. Við rekum hér sem betur fer góðar og styrkar stoðir utan um sjávarútveginn sem kosta auðvitað sitt. Það eru stofnanir eins og Hafrannsóknastofnun sem stuðlar að sjálfbærum veiðum, það er að einhverju leyti Landhelgisgæslan sem sér um björgun og leit á hafi úti, það er Fiskistofa, það er Samgöngustofa að einhverju leyti og auðvitað sjávarútvegsráðuneytið að einhverju leyti.

Er eðlilegt að þegar svona vel gengur fari gjöldin bara í sjávarútveginn sjálfan og þjóðin fái 0 kr. í sinn vasa?