145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjárhagsvandi Reykjanesbæjar.

[11:00]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég hef miklar áhyggjur af íbúum Reykjanesbæjar og möguleikum bæjarins til að veita þeim þá þjónustu sem nauðsynleg er í öllum bæjarfélögum. Bærinn skuldar rúmlega 40 milljarða kr. og kröfuhafarnir heimta sitt. Segja má að kröfuhafar haldi bænum í gíslingu. Á meðal kröfuhafa eru banki í eigu ríkisins, Lánasjóður sveitarfélaga og lífeyrissjóðir í eigu landsmanna. Þeir heimta sitt og gefa ekkert eftir í samningum við bæinn. Nú þegar hefur einn lífeyrissjóðanna neitað að taka þátt í afskriftum skulda sem nauðsynlega þurfa að fara fram svo bærinn geti rétt úr kútnum. Kröfuhafarnir neita að taka ábyrgð á því að hafa sjálfir tekið ákvörðun um að lána til framkvæmda með von um að þær borguðu sig. Sú von var nánast einungis byggð á draumum sjálfstæðismanna í bæjarstjórn sem ekki voru líklegir til að rætast.

Nú leggjast þeir yfir bókhald bæjarins og krefjast þess að ný bæjarstjórn skeri enn meira niður en gert hefur verið nú þegar. Þeir heimta niðurskurð sem á sér vart hliðstæðu nú á tímum og bitnar harðast á þjónustu við börn og þá sem veikast standa fyrir í samfélaginu. Þeir krefjast aukins niðurskurðar á öllum sviðum, leikskólum, grunnskólum, tónlistarskólunum, í aðstoð bæjarins við fatlaða íbúa, svo dæmi séu tekin, og þessi þjónusta hefur nú þegar verið skorin mjög mikið niður.

Ég spyr því hvort hæstv. forsætisráðherra ætli að beita sér fyrir farsælli úrlausn á vanda íbúa Reykjanesbæjar og hvað honum finnist að ríkið og ríkisstjórn hans eigi að leggja af mörkum til að leysa þann margþætta vanda sem íbúarnir glíma við og þeir sem reka bæinn núna.