145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjárhagsvandi Reykjanesbæjar.

[11:02]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég og aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni fylgjumst auðvitað með stöðu mála í Reykjanesbæ og sveitarfélögum öðrum sem hafa glímt við erfiða fjárhagsstöðu síðustu missiri og ár. En er hv. þingmaður að leggja til að forsætisráðherra fari að hlutast til um samninga um lánakjör sveitarfélaga eða með hvaða hætti þau eigi að greiða skuldir sínar? Ég efast um að hv. þingmaður telji það gott fyrirkomulag, eða að hv. þingmaður, sem var fjármálaráðherra um tíma, telji æskilegt að fjármálaráðherra segi til um það með hvaða hætti sveitarfélög eða aðrir aðilar eigi að greiða skuldir sínar eða ganga inn í samninga sveitarfélaga.

Hins vegar liggur það fyrir og hv. þingmaður veit að til eru ákveðnar leiðir til að aðstoða sveitarfélög í skuldavanda. Það er ákveðið ferli sem þá fer af stað reynist þeim ekki kleift að standa straum af skuldum sínum. Við vonumst að sjálfsögðu til þess að Reykjanesbæ takist að brúa bilið því að sveitarfélagið hefur gríðarlega mikla möguleika, mikil tækifæri til framtíðar og við hljótum að ætla að kröfuhafar, hvort sem þeir eru lífeyrissjóðir eða einhverjir aðrir, vilji veita sveitarfélaginu tækifæri til að nýta þá framtíðarmöguleika, því að það er auðvitað best fyrir alla að sveitarfélagið fái að nýta tækifærin og fái að skapa meiri verðmæti. Þannig getur það best staðið undir skuldum sínum.