145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[11:35]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur sjálfsagt lítið upp á sig að leiðrétta hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur enn einu sinni hvað þetta varðar og ekki munu kjör aldraðra og öryrkja batna við að við deilum um hvað gert var og hvað ekki á síðasta kjörtímabili. Varla er hv. þingmaður, formaður fjárlaganefndar, að bera saman stöðuna í ríkisfjármálum sem þá var og þá stöðu sem nú er.

Fyrst hv. þingmaður vill fara með okkur aftur í tímann er rétt að minna á að þegar launahækkanir gengu hér eftir árið 2011 voru gerðar breytingar aftur í tímann, þ.e. öryrkjar og aldraðir fengu bætur um leið og fólk á almennum vinnumarkaði. Komið hefur fram á fundum fjárlaganefndar, sem hv. þingmaður hefur hlýtt á, að það er í eina skiptið sem það hefur verið gert. Þegar vinstri stjórnin var hér við völd fengu aldraðir og öryrkjar kjarabætur um leið og aðrir landsmenn. En nú þegar ríkissjóður stendur mun betur sér ríkisstjórnin sér ekki fært að leggja fram tillögu um það. Reyndar hljóðar breytingartillaga okkar í minni hlutanum samtals upp á 6.575 milljarða kr., svo það sé nú leiðrétt hér, en mér fannst hv. þingmaður, formaður fjárlaganefndar, gefa það í skyn að hugsanlega mundi hún styðja breytingartillögu minni hlutans. Ég vil biðja hv. þingmann að tala skýrar hvað það varðar í næsta andsvari.