145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[11:40]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hluta fjárlaganefndar. Í inngangskafla frumvarpsins kemur fram hvert hlutverk fjáraukalaga er og ég vil fá að vitna í það, herra forseti:

„Með setningu laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, og í greinargerð með því frumvarpi, markaði Alþingi skýra stefnu um hlutverk og efni fjáraukalaga. Í því felst að gert er ráð fyrir að allar fyrirsjáanlegar fjárráðstafanir komi fram í fjárlögum en að í fjáraukalögum innan fjárhagsársins verði leitað eftir heimildum fyrir þeim fjárráðstöfunum sem ekki var hægt að sjá fyrir við afgreiðslu fjárlaga.“

Þarna kemur algjörlega skýrt fram í fjárreiðulögunum að fjáraukalögin eru fyrir verkefni sem ekki er hægt að sjá fyrir við afgreiðslu fjárlaga.

„Samkvæmt fjárreiðulögunum er slíkum fjárráðstöfunum í fjáraukalögum fyrst og fremst ætlað að taka til óhjákvæmilegra málefna, einkum til ófyrirséðra atvika, áhrifa nýrra kjarasamninga eða nýrrar löggjafar á árinu, en ekki til áforma um ný verkefni, aukins umfangs starfsemi eða t.d. rekstrarhalla einstakra ríkisstofnana umfram setta útgjaldaramma, enda er mælt fyrir um það í lögunum að vísa beri slíkum tillögum um breytingar á fjárheimildum til umfjöllunar um fjárlög fyrir næsta fjárhagsár.“

Við lestur frumvarpsins, herra forseti, er ljóst að ýmsar tillögur í frumvarpinu voru fyrirséðar og eiga því ekki heima í frumvarpi til fjáraukalaga.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, fór ágætlega yfir helstu breytingar, fór yfir frumjöfnuð, vaxtajöfnuð og heildarjöfnuð. Heildarjöfnuður á árinu 2015 verður 20,9 milljarðar kr. sem er 17,3 milljörðum meira en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Það er fyrst og fremst vegna þess að arðgreiðslur voru ekki nógu vel áætlaðar. Frávik í arðgreiðslum bendir fremur til síðbúinnar fjárlagagerðar fyrir árið 2015, sem brátt er á enda, en framlagningar leiðréttingarfrumvarps eins og fjáraukalögin eiga að vera í þessu tilliti. Við afgreiðslu fjárlaga í desember 2014 var gert ráð fyrir að Landsbankinn skilaði 6 milljörðum kr. í arð til ríkissjóðs. Í febrúar 2016 lagði bankastjórn hans til arðgreiðslu sem samþykkt var skömmu síðar á aðalfundi og nam hlutur ríkissjóðs í henni 25,6 milljörðum kr. sem er 17,9 milljörðum kr. hærri arðgreiðsla en fram kemur í áætlun fjárlaga. Þegar haft er í huga að eignarhlutur ríkissjóðs í Landsbankanum í árslok 2014 var 97,9%, en hann hækkaði í 98,2% vegna samruna Sparisjóðs Vestmannaeyja og Sparisjóðs Norðurlands við Landsbankann á árinu 2015 og fjármála- og efnahagsráðherra ræður honum, verður að gagnrýna að ráðherra hafi ekki gert nákvæmari áætlanir um arðgreiðslur. Í þessu sambandi er minnt á að áætlun vegna arðgreiðslu bankans var ekki nákvæmari árið áður. Þá greiddi bankinn tæplega 21 milljarð kr. arð í ríkissjóð en í fjárlögum var gert ráð fyrir að arðgreiðslur hans til ríkissjóðs næmu 6 milljörðum kr.

Auk þess má hafa í huga að í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir að Landsbankinn skili 7,1 milljarði kr. í arð til ríkissjóðs.

Í fjárlögum 2013 var gert ráð fyrir arðgreiðslum frá Landsbankanum upp á 9,6 milljarða, en með fjáraukalögum 2013 var bætt við 342 milljónum. Það var óverulegt. Í fjárlögum 2014 var ekki gert ráð fyrir nema 6 milljörðum í arð frá Landsbankanum en í fjáraukalögum 2014 bættust við 14.955 millj. kr. Þetta var skekkjan á áætlun árið 2014.

Árið 2015 var síðan gert ráð fyrir í fjárlögum rúmum 7,7 milljörðum en í því fjáraukalagafrumvarpi sem við ræðum hér er skekkjan upp á 17.900 millj. kr. Í fjárlögum fyrir árið 2016 er aðeins gert ráð fyrir rúmum 7 milljörðum í arð af Landsbankanum, en sú sem hér stendur telur augljóst að skekkjan verði mun meiri en við erum að ræða um í fjáraukalögum fyrir árið 2015. Þetta er ekki góð áætlanagerð. Þarna er ekki bara varlega áætlað heldur er þetta áætlun í skötulíki, verð ég að leyfa mér að segja, svo mikil hefur skekkjan verið á undanförnum árum og búast má við henni meiri á árinu 2016.

Ef litið er til afkomu bankans það sem af er ári má ljóst vera að arðgreiðslur verða í raun mun hærri, eins og segir í nefndaráliti minni hlutans, svo jafnvel geti numið milljörðum króna. Minni hlutinn gagnrýnir hversu erfiðlega gengur að áætla arðgreiðslur af eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum. Í frumvarpinu kemur fram að sala hlutabréfa og eignarhluta skilar ekki þeim 35,5 milljörðum kr. sem gert var ráð fyrir í fjárlögum. Minni hlutinn gagnrýnir að í fjárlögum hafi verið gert ráð fyrir stórum upphæðum sem engar líkur voru á að kæmu í ríkissjóð á árinu, samanber þessa 35,5 milljarða sem áttu að koma inn vegna sölu á hlut Landsbankans. Aðrar arðgreiðslur reyndust um 3 milljörðum kr. lægri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Stærsti hluti fráviksins er vegna Seðlabanka Íslands og verður að ætla að ríkisstjórnin hafi einnig tök á að áætla arðgreiðslugetu bankans nákvæmar en fram kemur í fjárlögum. Þá krafðist meiri hlutinn 700 millj. kr. í arð af Isavia þó að fyrirsjánleg hafi verið að gríðarleg fjárfestingaþörf fyrirtækisins stæði fyrir dyrum og að ekki væri unnt að taka þetta fjármagn út úr rekstrinum.

Í frumvarpinu sem við ræðum hér er gert ráð fyrir að framlag til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða til staða sem eru í eigu eða umsjón ríkisins hækki um 850 millj. kr. auk þess sem 12,2 millj. kr. bætast við í breytingartillögum við 2. umr. vegna hærri tekna af gistináttaskatti. Framlagið nam 145,8 millj. kr. í fjárlögum ársins. Minni hlutinn lagði ríka áherslu á að sú upphæð dygði engan veginn í umræðum um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 og ljóst væri að bæta þyrfti við fjármagni í fjáraukalögum. Nákvæmlega það sama gerðist við vinnu við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2014 og verður minni hlutinn að lýsa yfir undrun sinni á því hversu illa ríkisstjórninni gengur að áætla fyrir þessum lið í fjárlögum. Hæstv. fjármálaráðherra kynnti sérstaklega fyrir fjárlaganefnd síðastliðið vor að ríkisstjórnin hefði samþykkt að setja aukið fjármagn í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og í vegaframkvæmdir, en sú ráðstöfun hafði þá verið samþykkt á ríkisstjórnarfundi. Minni hlutinn getur ekki tekið undir með meiri hlutanum um að það verklag sé til sérstakrar fyrirmyndar því að verið er að setja fjármagn í verkefni sem áttu að vera í fjárlögum. Með því að setja það í fjáraukalög er verið að brjóta lög um fjárreiður ríkisins enda ekkert ófyrirséð eða óvænt á ferðum. Það að hæstv. fjármálaráðherra kynni áformin fyrir fjárlaganefnd breytir engu þar um.

Mér finnst bara argasta hneyksli að þeir stjórnarliðar sem samþykktu fjárlagafrumvarp fyrir árið 2015 skuli samþykkja einum rómi upphæð upp á 45,8 millj. kr. til að setja í framkvæmdir á ferðamannastöðum þegar hver maður sá að þessi upphæð mundi aldrei duga. Öllum var ljóst að bæta þurfti í vegakerfið og það margkom fram í umræðum en allt kom fyrir ekki. Fjáraukalögin eru notuð til að bæta þessa handvömm hjá ríkisstjórninni. Það er vægast sagt hneyksli, verð ég að segja.

Í árslok 2014 nam neikvætt bundið eigið fé Vegagerðarinnar 17,2 milljörðum kr. Í frumvarpinu er sótt um tæplega 3 milljarða kr. Fjármögnun Vegagerðarinnar er leiðrétt í breytingartillögum meiri hlutans frá framsetningu frumvarpsins þar sem í ljós kom að neikvætt eigið fé Vegagerðarinnar hækkar um 1,1 milljarð kr. en er ekki fjármagnað með beinu framlagi eins og frumvarpið benti til. Ríkisstjórnin ákvað að veita 1,3 milljarða kr. til nýframkvæmda og til styrkingar og viðhalds á vegakerfinu vegna stóraukins ferðamannastraums til landsins og valdi fjóra kosti. Til Dettifossvegar fara 400 millj. kr., til Kjósarskarðsvegar 400 millj. kr., Kaldadalsvegur fær 300 millj. kr. og Uxahryggjavegur 200 millj. kr. Ljóst var við samþykkt fjárlaga að nauðsynlegt væri að setja aukið fjármagn til Vegagerðarinnar. Minni hlutinn gagnrýnir harðlega að við ákvörðun á framantöldum vegum var farið fram hjá hefðbundnum ákvörðunarferlum. Þá duga fjárveitingarnar ekki til að gera upp halla á þjónustulið Vegagerðarinnar með fullnægjandi hætti.

Sótt er um 406,7 millj. kr. til embættis sérstaks saksóknara en í frumvarpinu kemur fram að samkvæmt lögum nr. 47/2015, um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögreglulögum, verður embætti sérstaks saksóknara lagt niður í árslok 2015 samhliða því að nýtt embætti héraðssaksóknara tekur til starfa 1. janúar 2016. Upphaflega var gert ráð fyrir að nýtt embætti héraðssaksóknara tæki til starfa 1. júlí 2015 en við þinglega meðferð málsins var gildistöku laganna frestað til áramóta. Ekki var áætlað fyrir kostnaði nýja embættisins í fjárlögum en eðlilegt hefði verið að millifæra þær heimildir til sérstaks saksóknara hefðu þær verið fyrir hendi. Minni hlutinn gagnrýnir að ekki hafi verið áætlað fyrir kostnaði embættisins í fjárlögum. Ekki er hægt að segja að um óvænt útgjöld sé að ræða og í frumvarpinu er ekki gerð grein fyrir með hvaða hætti farið verður með kostnað vegna verkefna sem embætti sérstaks saksóknara nær ekki að ljúka á árinu.

Veitt er heimild til að greiða fyrir þjónustu norska fjarskiptafyrirtækisins Telenor en þessi liður hefur verið í fjáraukalögum undanfarin ár. Reglubundnar greiðslur ættu ekki að vera í fjáraukalögum. Í breytingartillögum meiri hlutans við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016 er loks gert ráð fyrir að framlagið verði í fjárlögum.

Gerð er tillaga um 298 millj. kr. hækkun á framlagi til liðarins málskostnaður í opinberum málum vegna ákvörðunar dómstólaráðs sem tók gildi í lok janúar sl., eftir afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2015. Um verulega hækkun á málsvarnarlaunum og þóknunum verjenda og réttargæslumanna er að ræða. Minni hlutinn gagnrýnir að ákvarðanir ráðsins sé teknar eftir að fjárlagaramminn liggur fyrir. Síðbúin ákvörðun ráðsins veldur því að óska þarf eftir fjárheimild á fjáraukalögum til að rétta af þann óhjákvæmilega halla sem í ákvörðuninni felst.

Í frumvarpinu er óskað er eftir 1.834 millj. kr. á liðinn 1.11 Lækniskostnaður. Þar af eru 1.172 millj. kr. vegna samnings við sérfræðilækna. Við gerð samningsins var ekki gert ráð fyrir að hann leiddi til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð heldur var hann gerður á þeirri forsendu að komugjöld sjúklinga samkvæmt gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands, sem dragast frá ríkisframlaginu, yrðu hækkuð með breytingum á reglugerð þannig að kostnaðarhlutdeild sjúklinga yrði óbreytt hlutfall frá árinu 2013, þ.e. 42%. Reglugerðinni hefur hins vegar ekki enn þá verið breytt og eru áætluð umframútgjöld fyrir ríkissjóð vegna þess samtals 1.200 millj. kr. á þessu ári samkvæmt útreikningum Sjúkratrygginga Íslands. Þeir útreikningar miðast við að hlutdeild sjúkratryggðra sé 31,7% sem er sama hlutfall og árið 2010.

Minni hlutinn minnir á að reglugerðinni var ekki heldur breytt vegna rekstrar árið 2014 eins og gert var ráð fyrir í fjárlögum og er heildarkostnaður ríkissjóðs því ríflega 2 milljarðar kr. vegna þeirrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar. Þó að minni hlutinn hafi alltaf verið andvígur þessu markmiði ríkisstjórnarinnar og talið að fjármagna ætti samninginn með beinu framlagi úr ríkissjóði verður að gera athugasemd við þessa málsmeðferð ríkisstjórnarinnar. Minni hlutinn telur að í því felist slæm stjórnsýsla og lítil virðing fyrir lögum og reglum þegar ráðherra beitir sér tvívegis fyrir tiltekinni framkvæmd í fjárlögum og beitir sér síðan fyrir því að hún verði afturkölluð nokkrum mánuðum síðar í fjáraukalögum. Það hefur því tvívegis verið vilji meiri hluta þingsins að innheimta umrædd sjúklingagjöld en nokkrum mánuðum síðar beitir ríkisstjórnin sér með stuðningi fyrrgreinds meiri hluta til að breyta þeim vilja. Þetta væri einhvers staðar kallaður hringlandaháttur og óvönduð vinnubrögð, herra forseti.

Markmið með barnabótum er að jafna stöðu barnafjölskyldna en 600 millj. kr. sem voru ætlaðar til verkefnisins eru felldar brott með fjáraukalögunum. Skerðingarhlutfall bótanna hækkaði á árinu úr 3% í 4% af tekjum fyrir eitt barn, úr 5% í 6% fyrir tvö börn og úr 7% í 8% fyrir þrjú börn eða fleiri. Sú breyting gerði tekjutengingu brattari og dró úr heildarútgjöldum á liðnum á móti þeim breytingum sem höfðu áhrif til hækkunar. Í álagningu opinberra gjalda 2015 námu barnabætur rúmlega 10 milljörðum kr. og er það nokkru lægri fjárhæð en gert var ráð fyrir í fjárlögum 2015. Nú kemur í ljós, að mati minni hlutans, að skerðingarnar voru of miklar og að ekki tókst að jafna stöðu barnafjölskyldna að því marki sem stefnt var að.

Minni hlutinn telur að með frumvarpinu hefði fjármála- og efnahagsráðherra mátt birta sviðsmyndir sem sýndu með hvaða hætti ætlunin var að dreifa þessu fjármagni milli þjóðfélagshópa, hvernig það dreifðist í reynd og skýra í hverju frávikið liggur sem birtist í þessari miklu niðurfellingu bótanna.

Minni hlutinn telur að taka hefði átt úthlutunarreglur til endurskoðunar á árinu til að ríkissjóður hefði bætt afkomu þeirra sem minnst mega sín í samræmi við þær fjárhæðir sem Alþingi hafði samþykkt til verksins. Ekki hefur verið sýnt fram á að markmiðin hafi náðst þannig að óumdeilt sé og réttlætanlegt að afturkalla þetta fjármagn í ríkissjóð.

Hið sama má segja um vaxtabætur, þeim er ætlað að lækka greiðslubyrði húsnæðiskaupenda en í fjáraukalagafrumvarpinu er lagt til að greiddar verði út 200 millj. kr. og þær gangi til ríkissjóðs. Meginskýringin er sú að heildarfasteignamat heimila hækkaði um 8% og jók þar með nettóeign heimila í húsnæði sem hefur í för með sér greiðslu lægri vaxtabóta vegna eignatengingarinnar. Eignastaða heimilanna batnaði en greiðslustaða batnaði ekki þar sem um reiknaðan bata er að ræða. Minni hlutinn telur að lækka hefði þurft mörk eignaskerðingarinnar af þessum sökum til að bæta afkomu heimilanna. Enn fremur telur minni hlutinn að birta þurfi sambærilegar sviðsmyndir og bent er á vegna barnabótanna.

Herra forseti. Lækkun veiðigjalda um rúmlega 2 milljarða miðað við fjárlagaáætlun ársins 2015 er að mati fjármála- og efnahagsráðuneytisins einkum rakin til breyttra lagaákvæða sem jafna álagningu þeirra betur yfir fiskveiðiárið og hliðra henni þar með meira. Á fiskveiðiárinu 2015/2016 verður veiðigjald lagt á mánaðarlega og gjalddagi verður 1. hvers mánaðar vegna veiða næstsíðasta mánaðar. Veiðigjald verður því lagt á sem næst rauntíma í stað þess að gjöldin séu að stærstu leyti lögð á handhafa aflaheimilda við úthlutun við upphaf fiskveiðiárs og síðan innheimt með fjórum jöfnum gjalddögum eins og fyrirkomulagið var meðal annars á fiskveiðiárinu 2014/2015. Þetta leiðir til þess að álagning veiðigjalda verður lægri á almanaksárinu 2015 en ella hefði orðið þar sem hærri fjárhæð fiskveiðiársins 2015/2016 lendir á árinu 2016. Í þessu sambandi minnir minni hlutinn á að ríkisstjórnin hefur lækkað veiðigjöldin verulega frá því að hún tók við stjórnartaumunum eins og sjá má á mynd í nefndarálitinu.

Taflan sýnir veiðigjöldin. Á árinu 2008 voru engin veiðigjöld, 2009 voru þau 170 millj. kr., 2010 1.250 millj. kr., 2011 2.470 millj. kr. og 2012, þegar breyting var gerð, 7.830 millj. kr. Árið 2013 voru þau 13.490 millj. kr. Síðan tók við ný ríkisstjórn og lækkaði veiðigjöldin þannig að 2014 voru þau 9.770 millj. kr. og 2015 samkvæmt fjáraukalagafrumvarpinu rétt rúmlega 5 þús. millj. kr.

Þessi breyting til baka á sér stað þegar útgerðin hefur aldrei átt eins góða tíma og aldrei skilað þeim sem njóta sérleyfis á afsláttarkjörum, leyfi ég mér að segja, eins miklum arði. Útgerðin skilar sjálfri sér arði upp á vel á annan tug milljarða. Þetta er sannarlega gagnrýnisvert, herra forseti, en er í takt við ákvarðanir hægri stjórnarinnar þegar kemur að álögum á auðlindir þjóðarinnar og þá sem betra hafa það í samfélaginu.

Með fjárlögum fyrir árið 2013 samþykkti Alþingi fjárfestingaráætlun fyrir árin 2013–2015. Hún var sett fram á grunni þess að ríkissjóður endurheimti stóran hluta af þeim fjármunum sem lagðir voru fram til að endurfjármagna bankakerfið og að með nýjum lögum um fiskveiðistjórn og veiðigjöld fengi þjóðin aukna hlutdeild af arði sjávarauðlinda.

Fjárfestingaráætlunin byggðist á þeim rökum að í þeirri stöðu sem blasti við eftir hrun væri skynsamlegt að nýta hlut af arði bankanna og hluta af auðlindagjaldi til að fjárfesta í innviðum samfélagsins, í almannaþágu. Ný ríkisstjórn sló áætlunina af, svo til í heilu lagi, með þeim rökum að hún hefði ekki verið fjármögnuð. Með breytingum á arðgreiðslum sem lagt er til að Alþingi samþykki með fjáraukalögum og veiðigjöldum er hins vegar ljóst að fjárfestingaráætlunin var fjármögnuð og mun meira en það. Staðreyndirnar og tölurnar tala sínu máli, herra forseti, hvað þetta varðar.

Minni hlutinn vekur athygli á heimildargrein 7.13 þar sem Landbúnaðarháskóla Íslands er heimilað að auka hlutafé sitt um 3,7 millj. kr. í Hvanneyrarbúinu ehf. sem áður hét Grímshagi ehf. og nýlega hefur skipt um nafn en þó ekki kennitölu. Þetta er liður í endurskipulagningu félagsins en rekstur þess hefur ekki gengið sem skyldi. Minni hlutinn leggur áherslu á að mennta- og menningarmálaráðuneytið fylgist með því að endurskipulagning skili tilætluðum árangri.

Herra forseti. Minni hlutinn gerir eina breytingartillögu og hún fjallar um kjör eldri borgara og öryrkja. Með breytingartillögu minni hlutans er gerð sú sanngjarna tillaga að kjör eldri borgara og öryrkja verði bætt í samræmi við hækkun lægstu launa og greiðslur hækki frá 1. maí á þessu ári eins og laun á almennum markaði. Því er lagt til að veitt verði tæplega 6,6 milljarða kr. framlag til að bæta kjör eldri borgara og öryrkja.

Undir nefndarálit minni hlutans skrifa ásamt þeirri sem hér stendur hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.