145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir ræðuna. Mig langaði til að koma í andsvar við hana vegna þess að hún ræddi fjárfestingaráætlun síðustu ríkisstjórnar og talaði um þau verkefni sem lögð voru fram í kosningafjárlögum fyrir 2013 og taldi að fjárfestingaráætlun 2013–2015, sem fyrri ríkisstjórn setti sér, hefði verið fullfjármögnuð.

Virðulegi forseti. Ég hafna þessari fullyrðingu. Áætlunin átti meðal annars að byggja á verulega hækkuðu veiðigjaldi og álögum á sjávarútvegsauðlindina. Samfylkingin sat í ríkisstjórn 2007–2013, í heil sex ár, og hefur haft það á stefnuskrá sinni að gjörbylta fiskveiðistjórnarkerfinu af því að það er svo ómögulegt að þeirra mati. Ekki kom til þeirra framkvæmda þau sex ár sem Samfylkingin sat í ríkisstjórn. Þess vegna vil ég spyrja þingmanninn: Hvernig er hægt að halda því fram að þessi fjárfestingaráætlun hafi verið fullfjármögnuð þegar enginn vilji var hjá ríkisstjórninni að breyta nokkru í fiskveiðistjórnarkerfinu öðru en að hækka álögur? Ekki gátu menn hrint stefnu sinni í framkvæmd sem gekk út á fyrningarleiðina, sem þeir lofuðu að minnsta kosti í tvennum kosningum.

Mig langar jafnframt að spyrja þingmanninn hvernig hægt sé að tala um að fjárfestingaráætlunin hafi verið fullfjármögnuð þegar gert var ráð fyrir því að ríkissjóður mundi endurheimta stóran hluta af þeim fjármunum sem voru notaðir til að endurfjármagna bankakerfið, þegar það var tæpast árið 2015 orðin eftirspurn eftir bönkunum.

Þetta var eins og allir vissu, virðulegi forseti, byggt á miklu lofti. Það er ágætt að þingmaðurinn komi þá í andsvar og taki af öll tvímæli um það.