145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:05]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú er ég svo heppin að á borði mínu í þingsal er ég einmitt með fjárfestingaráætlun fyrir Ísland árin 2013–2015. Þar eru talin upp mörg verkefni sem sannarlega hefði skipt máli fyrir íbúa þessa lands að hefði verið hrint í framkvæmd á þessum árum. Ég mun telja nokkur þeirra upp á eftir ef ég hef tíma.

Fjármögnunin var á þessum þremur árum rúmir 5 milljarðar á ári af veiðigjöldum sem við gerðum ráð fyrir og voru í fjárlögum fyrir árið 2013 rúmir 13 milljarðar. Við gerðum ráð fyrir að rúmir 5 færu í fjárfestingaráætlunina, en jafnvel eftir lækkun hægri stjórnarinnar á veiðigjaldinu í mestu gósentíð útgerðarinnar hefði veiðigjaldið samt sem áður staðið undir þeim hluta. Síðan var gert ráð fyrir að rétt um 7 milljarðar af arði bankanna rynnu til fjárfestingaráætlunarinnar á hverju ári þessi þrjú ár. Það hefði sannarlega gengið eftir vegna þess að 10 milljarðar komu af arði úr bönkunum árið 2013, tæpur 21 milljarður 2014 og 25,6 milljarðar árið 2015.

Getur verið að hv. formaður fjárlaganefndar haldi því fram að fjárfestingaráætlunin hafi ekki verið fjármögnuð þegar tölurnar æpa á okkur úr því frumvarpi sem hv. þingmaður ber hér uppi?