145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins að byrja á þessu síðasta. Það kann að vera sjónarmið að áætla varlega óreglulega eða tímabundna liði eins og arðgreiðslur. Ég hefði alveg skilning á því að það væri þá bara sett fram og rökstutt. En þegar svona vanmat er aftur og aftur sett inn í fjárlögin og ekkert haft fyrir því eiginlega að útskýra hvers vegna, þá er það auðvitað orðið hálfgert svindl. Þá eru menn einfaldlega ekki að loka fjárlögunum á réttum grunni miðað við upplýsingar sem fyrir liggja. Það eru bara faktúruæfingar.

Varðandi vegamálin og skuldfærsluna er mjög áhugavert að heyra að Ríkisendurskoðun gerir við þetta athugasemdir. Ég hefði gaman af því að sjá þær og ég hefði gaman af því að lögð yrði vinna í það, ef fjárlaganefnd gæti beitt sér fyrir því, að fara í og skoða lögskýringargögn í þessu máli.

Það kann að vera að í einstöku tilvikum hafi menn meðvitað hér á þingi sett viðbótarfé inn í vegamál sem þeir litu á sem flýtingu og ætti að endurgreiðast síðar af mörkuðum tekjum. Ég ætla ekki að útiloka að það hafi verið gert. En þá var það líka beinlínis ákveðið. En í öðrum tilvikum þegar beinlínis var aukið við framkvæmdaféð með beinum fjárveitingum úr ríkissjóði, þá leit ég að minnsta kosti svo á, sem þátttakandi í því báðum megin borðsins á mismunandi tímum, að við værum einfaldlega að auka fjárfestinguna á þessu sviði með fjármunum úr ríkissjóði og það myndaði enga skuld hjá Vegagerðinni.

Varðandi veiðigjöldin þá liggur það bara. Grófa myndin er sú að framlegðin í íslenskum sjávarútvegi núna ár eftir ár er sú mesta í sögunni. 70–80 milljarðar kr. eru fjármunamyndun greinarinnar og 5, 7 og þótt það væru 10 milljarða veiðigjöld séð í því samhengi er náttúrlega svo hverfandi lítið af þeirri miklu fjármunamyndun að það hlýtur að teljast hógvær hlutdeild þjóðarinnar í arði af þessari auðlind. Þegar menn moka á sama tíma 13–15 milljörðum í sjálfa sig, (Forseti hringir.) eigendur félaganna, í arðgreiðslur, þá hafa þeir ekki stöðu til að væla undan því þótt veiðigjöldin væru á svipuðum slóðum að óbreyttri afkomu og þau voru til dæmis fiskveiðiárið 2012/2013.