145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:42]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til fjáraukalaga, sem er að einhverju leyti endurtekið efni frá fyrri ræðum minni hluta fjárlaganefndar. Við höfum gagnrýnt, og það á ekki bara við núna, að fjáraukalög séu of oft notuð til þess að útvíkka verkefni, jafnvel ný verkefni og þar fram eftir götunum. Hlutverk fjáraukalaga er, eins og segir í inngangskafla frumvarpsins þar sem það er rækilega útlistað, að gera ráð fyrir öllum fyrirsjáanlegum fjárráðstöfunum í fjárlögum á hverju ári en fjáraukalögin taki á því sem er ekki hægt að sjá fyrir við afgreiðslu fjárlaga, þ.e. einhver óhjákvæmileg málefni. Það er tiltekið að það geti verið nýir kjarasamningar sem gerðir eru á árinu, ný löggjöf, en það eigi ekki að vera ný verkefni eða aukið umfang starfsemi eða til að takast á við rekstrarhalla einstakra stofnana. Við teljum að í þessu frumvarpi séu nokkur mál sem eigi alls ekki heima á fjáraukalögum. Ég fer yfir það á eftir.

Ég ætla fyrst að benda á arðgreiðslur. Það virðist vera mjög erfitt fyrir ríkisstjórnina að áætla arðgreiðslur frá Landsbankanum. Það munar í rauninni heilum 18 milljörðum miðað við fjárlagagerðina. Okkur þykir það nokkuð ljóst að í ár sé enn og aftur verið að vanáætla þennan lið í fjárlögum. Það er gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpi 2016 að Landsbankinn skili rétt rúmlega 7 milljörðum í arð. Í nefndaráliti minni hlutans er ágætistafla þar sem kemur fram hvað hefur verið vanáætlað í gegnum árin. Það má kannski segja að stundum sé gott að hafa vaðið fyrir neðan sig, en hér erum við ekki að tala um einhver hundruð milljóna, við erum að tala um milljarða. Það getur ekki verið ábyrgt að leggja þetta svona fram. Ég minni á að við á þinginu erum að fara að greiða atkvæði um frumvarp um opinber fjármál. Þar er meginhugmyndin sú að áætla fram í tímann. Þá er mjög mikilvægt að menn reyni að vera eins nákvæmir og hægt er. Það er eitthvað mjög dularfullt hér í gangi, að menn skuli ekki geta áætlað þetta. Það skeikar tugum milljarða jafnvel. Maður veltir fyrir sér hvort þetta sé einhver leikur til að geta einhvern veginn komið síðar og klappað sér á bakið í árslok. Þetta er furðulegt.

Hérna er góðkunningi fjáraukalaganna, getum við sagt, þ.e. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða. Það er með ólíkindum hvað ríkisstjórninni tekst illa að áætla þann lið. Henni hefur eiginlega verið fyrirmunað að áætla fyrir þessum lið frá því að hún tók við völdum. Ítrekað hefur minni hlutinn bent á að þær upphæðir sem settar eru á fjárlög dugi skammt. Í fyrra var gert ráð fyrir tæpum 146 millj. kr. á þennan lið. Það lá fyrir að það gæti ekki gengið enda gríðarleg þörf fyrir uppbyggingu á innviðum á þessu sviði.

Hæstv. fjármálaráðherra kynnti það sérstaklega fyrir fjárlaganefnd síðastliðið vor að aukið fjármagn yrði sett í framkvæmdasjóðinn og í vegaframkvæmdir. Það er tekið fram í nefndaráliti meiri hlutans að slíkt verklag sé til fyrirmyndar. Ég vil gagnrýna það. Mér finnst ekki skipta neinu máli hvort hæstv. fjármálaráðherra kemur og kynnir þetta fyrir nefndinni og það bæti einhvern veginn fyrir að þetta sé á fjáraukalögum. Annað hvort væri það nú að þetta væri kynnt fyrir nefndinni. Þetta eru eftir sem áður ekki ásættanleg vinnubrögð. Þessi upphæð átti að fara á fjárlögin. Það er ekki hægt að segja að þetta sé óvænt eða ófyrirséð, það er ekki þannig. Það kom mér svolítið á óvart að lesa í nefndaráliti meiri hlutans að það væri talið hæstv. fjármálaráðherra til tekna að hafa mætt á nefndarfund til að segja að þessar upphæðir yrðu settar á fjáraukalög. Það er sjálfsögð kurteisi en breytir því ekki að liðurinn á ekki heima á fjáraukalögum.

Undir þessum hatti voru einnig fjárframlög til Vegagerðarinnar, þ.e. vegna Dettifossvegar, Kjósarskarðsvegar, Kaldadalsvegar og Uxahryggjavegar. Ég geri ekki lítið úr því að það vanti fjármagn í vegagerð. Það er eiginlega alveg sama hvar borið er niður. Við erum ánægð með að settur er peningur í þennan málaflokk. Við bendum hins vegar á að eðlilegra sé að ákvarðanir sem eru teknar fari í hefðbundinn farveg, þ.e. í samgönguáætlun þar sem einhvers konar mat fer fram á því hvar þörfin er mest og þar fram eftir götunum. Ég ætla ekki að segja að þetta séu tilraunakenndar ákvarðanir, en okkur finnst ekki liggja fyrir hvernig menn meta að það skuli akkúrat fara í þessar framkvæmdir umfram einhverjar aðrar. Ég þekki alveg og veit að Dettifossvegur er mjög mikilvægur, en ég veit að það á við um svo marga aðra vegi líka.

Ég ætla að hlaupa yfir sumt af þessu. Annað hérna er Telenor sem við höfum fengið á hverju ári, sem er þjónusta við norska fjarskiptafyrirtækið Telenor. Þetta kemur enn og aftur inn á fjáraukann, en sem betur fer og ég fagna því þá er sú upphæð sem um ræðir, eitthvað á milli 30 og 40 milljónir, komin inn í frumvarp til fjárlaga fyrir 2016. Þetta ættum við vonandi ekki að sjá framar á fjáraukalögum. Það er gott.

Málskostnaður í opinberum málum er annar liður sem hefur gengið mjög illa að áætla fyrir og fer ítrekað fram úr fjárframlögum. Ég held að ég fari rétt með að Ríkisendurskoðun sé að gera einhverja úttekt á þessum málaflokki. Það eru margir liðir þarna undir. Í sumum er eflaust erfitt að spara. Þar eru líka liðir sem eru að einhverju leyti ófyrirsjáanlegir, eins og hversu mörg mál koma til kasta dómstóla og þar fram eftir götunum. Þar undir falla blóðprufur og ýmislegt annað. Mér finnst mjög gott að Ríkisendurskoðun sé að gera einhverja úttekt á þessu vegna þess að við höfum verið með málaflokkinn inni á borði fjárlaganefndar. Þar er margt óljóst. Þetta er svolítið flókinn liður. Eins og oft er ekki áætlað um of heldur er frekar vanáætlað. Á því er engin undantekning í ár.

Lækniskostnaður er annar liður sem við sjáum hérna í síðasta skipti. Hann var líka í fyrra. Það er svolítið merkilegt. Þetta eru ekki góð vinnubrögð. Við fögnum því að framlög sjúklinga hafa ekki verið hækkuð. Þetta snýst um gjöld sem sjúklingar greiða fyrir sérfræðiþjónustu. Þegar fjárlög voru samþykkt fyrir 2014 og 2015 þá voru þau samþykkt undir þeim formerkjum að ráðherra mundi hækka gjaldskrána. Við getum fagnað því að ráðherra hækkaði ekki gjaldskrána og út af stóð þá rúmlega 1 milljarður sem þurfti að taka inn á fjáraukalög í fyrra og svo aftur í ár. Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð. Menn setja þá milljarðinn inn á fjárlög og ákveða það. Það er þá pólitíska ákvörðun og góð ákvörðun að hækka ekki gjaldskrána, hækka ekki álögur á sjúklinga. Menn verða að fara eftir réttum leiðum. Það er mjög merkilegt að við skulum vera að fá þetta í annað skiptið inn á fjáraukalög.

Veiðigjaldið hefur verið rætt hér. Hv. þingmenn sem hafa talað hafa farið ágætlega yfir það og þekkja það mál jafnvel betur en ég. Það vekur athygli að veiðigjöldin lækka um rúmlega 2 milljarða miðað við fjárlög ársins 2015. Við sjáum að gert er ráð fyrir lægri veiðigjöldum í fjárlagafrumvarpi 2016. Við vitum að útgerðinni gengur vel. Ætli lækkun olíugjalds hafi ekki gríðarleg áhrif á útgerðina? Maður hefði þá viljað sjá það skila sér betur inn sem skatttekjur fyrir þjóðina. Ég vil benda á töflu í nefndaráliti minni hlutans þar sem er hægt að sjá veiðigjald fyrir veiðiheimildir frá árinu 2008 og að frumvarpi 2016.

Ég mundi vilja vekja athygli á tveimur heimildargreinum. Mál sem okkur finnst ástæða til að skoða betur í nefndinni eru Ýmis ákvæði, Heimildir, breytingar á 6. gr., liður 7.10 um að gerast stofnaðili að Innviðafjárfestingabanka Asíu og samþykkja að hlutur íslenska ríkisins verði 17,6 milljónir bandaríkjadala. Okkur fannst ástæða til að staldra við það. Er þetta eitthvað sem við eigum að taka þátt í núna? Þetta eru umtalsverðar fjárhæðir en auðvitað getum við selt hlutinn aftur. Eftir að hafa fengið kynningu á minnisblaði frá fjármálaráðuneytinu þá kann þetta að vera ágætisákvörðun. Það eru meira og minna öll Evrópulöndin og Norðurlöndin hluthafar í þessu. Það væri ágætt að fá svör við því.

Síðan var breytingartillaga um að auka hlut þess sem áður hét Grímshagi en heitir núna Hvanneyrarbúið, ef ég man rétt. Það var ekki há upphæð, það voru einhverjar örfáar milljónir. Við fengum eftir sem áður fulltrúa menntamálaráðuneytisins á fund því að það hafa verið vandræði með Grímshaga og þennan rekstur. Þetta hefur ekki gengið sem skyldi. Nú er verið að fara í einhverjar breytingar á þessu, skipta því upp og til þess þurfti aðeins meira hlutafé. Það voru ekki háar upphæðir en við fengum útskýringar á því hvað var þarna í gangi. Það er ástæða til að við fylgjumst með því sem gerist í framhaldinu. Við vonum auðvitað að þetta verði til þess að hægt sé að ná rekstrinum á réttan kjöl.

Síðan eru fjölmargir liðir í frumvarpinu sem snúa að óvæntum ófyrirséðum útgjöldum, þá kannski fyrst og fremst vegna Holuhrauns og eldsumbrota og svo kjarasamninga sem voru gerðir á árinu. Það er alveg eins og það á að vera. Það á vel heima þarna.

Síðan gerum við í minni hlutanum breytingartillögu, sem okkur finnst vera sanngjörn, þar sem við leggjum til að kjör eldri borgara og öryrkja verði bætt í samræmi við hækkun lægstu launa og að greiðslurnar hækki frá 1. maí á þessu ári eins og á almennum markaði. Þetta yrðu um 6,6 milljarðar og miðað við þann afgang sem er á árinu 2015 á ríkissjóður fyrir þessum útgjöldum. Mér finnst þetta vera mjög mikilvægt og vonast til að tillagan verði samþykkt á þinginu.