145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[13:52]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Nú er í fjáraukalögunum gert ráð fyrir að 600 milljónir gangi í ríkissjóð af þeirri upphæð sem Alþingi hafði samþykkt til barnabóta. Við samþykktum í fjárlögum fyrir árið 2015 að það færu um 11 milljarðar í barnabætur. Þær voru hækkaðar sérstaklega vegna mótvægisaðgerða út af matarskatti. Mikið var talað um hve vel væri hugað að þeim sem væru fátækir og ættu börn því að það ætti að hækka barnabæturnar um milljarð. Nú kemur í ljós að 600 milljónir af þeim milljarði renna aftur í ríkissjóð vegna þess að skerðingarmörkin voru svo skörp. Í viðmiðunum í skattalögunum í 68. gr. er gert ráð fyrir að barnabætur skerðist við 200 þús. kr. mánaðarlaun hjá einstaklingi.

Af því að hv. þingmaður er einn af málsvörum barna hér á Alþingi vil ég spyrja hann út í hvort það hefði ekki verið réttlát krafa að stjórnvöld tækju upp skattalögin á miðju ári þegar ljóst var að peningurinn sem Alþingi hafði samþykkt til að jafna stöðu barnafjölskyldna mundi ekki ganga til þeirra sem þyrftu á honum að halda heldur aftur í ríkissjóð til að skila enn meiri afgangi á árinu 2015. Hvað sér hv. þingmaður fyrir sér varðandi barnabætur í framhaldinu? Það er ekki gert ráð fyrir að þessum skerðingarmörkum verði breytt. Enn eiga barnabætur að skerðast við 200 þús. kr. samkvæmt skattalögunum. (Forseti hringir.) Finnst hv. þingmanni það ásættanlegt?