145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[13:57]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, hvernig sé ég það fyrir mér? Þetta er svo stór spurning, hvað er eðlilegt. Af hverju höfum við ekki getað sest niður, Íslendingar, og rætt það hvað er eðlileg auðlindarenta? Hvað er það? Er 20% of mikið? Mér finnst það ekki. Ef hagnaður er 72 milljarðar, ég heyrði þá tölu nefnda í morgun, eru 20% af því of mikið? Mér finnst það ekki. Mér finnst það alls ekki of mikið. Vissulega borgar útgerðin töluvert miklar upphæðir í ríkissjóð. Eftir því sem ég man, ef ég man rétt, og kom fram á fundi sem var haldinn um daginn, eru þetta um 22 milljarðar með tekjuskatti, tryggingagjaldi og auðlindagjaldi. Það er alveg dágóð upphæð. En mér skilst — nú leiðréttir þingmaðurinn mig kannski ef ég fer ekki rétt með — að þetta sé umframhagnaður þegar búið er að reikna allt annað. Er það ekki? Var það ekki þannig sem þetta var í upphafi áætlað? Að verið væri að borga auðlindarentu af umframhagnaði í útgerðinni?

Ég velti fyrir mér hvað er eðlilegt í sambandi við þetta. Því var haldið fram á síðasta kjörtímabili að útgerðin hafi verið skattpínd og hún pínd svo gríðarlega að annað eins hafi ekki þekkst. En á sama tíma eru samt útgerðarmenn að fjárfesta í kúabúum, prentsmiðjum og blöðum, t.d. Morgunblaðinu. Hvernig stendur á því að þeir geta verið að eyða peningum í það en kvarta svo yfir því að verið sé að skattpína þá eða pína þá þannig?

Mér finnst öll þessi umræða vera einhvern veginn ótrúlega broguð og erfið og lýsa því hvernig við hugsum oft, Íslendingar. Það vantar meiri samfélagslega hugsun hjá öllum, hvað sé eðlilegt og ekki eðlilegt í þessu. (Forseti hringir.) Ég veit það ekki. Þetta er umræða sem við verðum að taka (Forseti hringir.) og menn verða að vera skynsamir í að taka ákvarðanir um hvað er eðlilegt í þessu máli.