145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér fjáraukalög fyrir árið 2015. Við þekkjum að það sem koma á fram í fjáraukalögum eru fyrst og fremst ófyrirséð útgjöld. Þetta eru ekki fjárlög og þannig er umræðan um fjáraukalög að verið er að bæta fjármunum inn í fjárlög fyrir þetta ár sem eiga fyrst og fremst að lúta að þeim þáttum sem eru ófyrirséðir. Eðlilega verða þeir margir þó að reynt sé að koma í veg fyrir að þeir verði allt of hátt hlutfall af fjárlögum hvers árs.

Umræðan hefur farið vítt og breitt eins og eðlilegt er. Ég vil byrja á því að tala um það sem rætt hefur verið hér. Það sem helst brennur á mér eru kjör aldraðra og öryrkja. Ég hafði reiknað með því að komið yrði til móts við þann hóp sem sett hefur fram réttlátar kröfur og óskir um að fá sambærilegar hækkanir og verið hafa á hinum almenna vinnumarkaði varðandi launahækkanir í landinu, sem verið hafa þó nokkuð miklar á undanförnum mánuðum. Meðaltal launahækkana á undanförnum mánuðum er 14,6% eða rúm 14%, en í tillögum í fjáraukalögum er lagt til að aldraðir og öryrkjar fái 9,7% frá og með næstu áramótum. Þeir eru þar með, að ég tel, snuðaðir um átta mánuði. Þeir hefðu að öllu eðlilegu átt að fylgja lægstlaunuðu hópunum í landinu sem fengu launahækkanir frá og með 1. maí í ár.

Eins og fram kemur leggur minni hlutinn til í breytingartillögu sinni að úr því verði bætt og tel ég það mjög brýnt. Við þingmenn vorum í dag, á alþjóðlegum degi fatlaðra, brýnd til þess að standa með þessum hóp í þjóðfélaginu sem oft má sín lítils gagnvart því að fá leiðrétt kjörin og verður oftar en ekki afgangsstærð þegar á reynir. Þótt fögur fyrirheit séu á lofti fyrir kosningar og í umræðunni er það oftar en ekki þannig að þessir tveir hópar, aldraðir og öryrkjar, eru einhver afgangsstærð þegar búið er að skipta upp kökunni fyrir aðra. Í ár tókst láglaunafólki með samstöðu og mikilli elju þó að ná fram þeim árangri að laun þeirra hækka á næstu þremur árum í 300 þús. kr. á mánuði, sem er nú ekkert til að hrópa húrra fyrir, en er samt áfangi og sýnir hvað hægt er að gera ef fólk stendur saman.

Nú þurfum við þingmenn að standa saman og styðja réttlátar kröfur þessara hópa, aldraðra og öryrkja. Það er ekki ásættanlegt að þessir hópar verði skildir einir eftir með einungis þá hækkun sem þarna um ræðir, sem er ekki meðaltal af launahækkunum í landinu, og að sú hækkun sé ekki afturvirk eins og hjá öðrum hópum sem betra hafa það í þjóðfélaginu. Þar á meðal erum við þingmenn og fleiri sem falla undir úrskurð kjararáðs, sem fengum 9,3% hækkun afturvirkt frá 1. mars síðastliðnum. Þar á meðal eru aðrir æðstu embættismenn í þjóðfélaginu, ráðherrar, dómarar, prestar, ráðuneytisstjórar, svo eitthvað sé nefnt, og við þingmenn. Þess vegna ættum við sem erum í stöðu til þess að leiðrétta kjör þessara hópa að beita okkur fyrir því þegar hagur ríkissjóðs batnar að það sé eitt af forgangsverkefnum okkar að reyna að lyfta kjörum þess fólks sem oftar en ekki berst fyrir því um hver mánaðamót að láta enda ná saman.

Manni finnst samt oft vera ótrúlegt skilningsleysi í umræðunni gagnvart þessum hópum. Það er eins og að þetta eigi alltaf einhvern veginn að blessast, það hafi gert það gegnum tíðina og það hljóti bara að gera það áfram. Eins og það fólk sem þarna á í hlut sé ekki af holdi og blóði og hafi sömu þarfir og við hin og geri sömu kröfur til lífsins gæða að geta framfleytt sér og sínum með sóma en þurfi ekki að velta hverri krónu fyrir sér til þess að eiga fyrir lífsnauðsynjum og standa undir leigu og mat. Þá er allt annað eftir sem við að öllu jöfnu sem ríkt samfélag teljum svo sjálfsagðan og eðlilegan hlut að geta veitt okkur og börnum okkar. Það er nauðsynlegt að hafa einhverja aðra lífsfyllingu en rétt að þrauka á milli mánaðamóta.

Ég skora á vel meinandi þingmenn í stjórnarflokkunum, ég sé að þeir eru að hlusta á þessa umræðu og veit að þeir eru velviljaðir gagnvart þessu máli, að sýna nú þann kjark að ganga fram og fallast á þá tillögu sem minni hluti fjárlaganefndar leggur fram um að sú hækkun sem þessir hópar fá frá 1. maí verði afturvirk. Það kostar pening. Það kostar jú allt pening. Það kostar rúma 6 milljarða, en ríkissjóður er að ná vopnum sínum og skilar í ár yfir 20 milljarða afgangi. Við eigum sem ríkt samfélag að geta mætt þeim sem verst eru staddir og sem minnsta hafa burði eða verkfæri til að berjast fyrir hag sínum, sem hafa ekki verkfallsvopnið eins og aðrar stéttir til þess. Þá treysta þessir hópar á að þingmenn hlusti á réttlætiskennd sína og forgangsraði í þeirra þágu.

Svo er hér ýmislegt sem alveg má ræða þó að kjör aldraðra og öryrkja séu efst í huga mínum á þessari stundu. Til dæmis mætti ræða samgöngur í landinu. Sá málaflokkur hefur algjörlega verið látinn sitja á hakanum og í fjáraukalögum er verið að krukka eitthvað í vegamál. Það fór reyndar fram hjá hefðbundnum leiðum. Það var diktað upp að 1,3 milljarðar færu til nýframkvæmda til styrkingar, viðhalds á vegakerfinu vegna stóraukins ferðamannastraums og ákveðnir vegarkaflar nytu góðs af því. En það er auðvitað bara brandari í stóra samhenginu.

Nú erum við að horfa upp á það að hingað kemur gígantískur fjöldi ferðamanna inn í landið og mun hann aukast um 30% á milli ára. Við ætlum algjörlega að láta taka okkur í bólinu í vegamálum í landinu. Við getum ekki boðið upp á almennilegar samgöngur vítt og breitt um landið til þess að dreifa ferðamönnum sem best og til að dreifa álagi á náttúru landsins. Svo fleiri stoðir skapist í atvinnulífinu um allt land verða samgönguæðarnar að vera í lagi. Það er þyngra en tárum taki að samgönguáætlun skuli ekki enn þá hafa litið dagsins ljós og að það þurfi endalaust að vera að reyna að kroppa eitthvað í þessa hluti til þess að bjarga málum fyrir horn í fjáraukalögum, sem ætti auðvitað að taka myndarlega á í fjárlögum. Það var ekki gert í fjárlögum fyrir árið 2015 og verður heldur ekki gert í fjárlögum fyrir árið 2016. Þá koma kannski einhverjar bætur til þess að redda hlutunum í fjáraukalögum, en viðhald er auðvitað orðið langt á eftir, það hefur dregist aftur úr svo kostnaður við það verður miklu meiri en annars væri og allar nýframkvæmdir eru ekki svipur hjá sjón.

Hvað skilar ferðaþjónustan miklum gjaldeyristekjum inn í landið? Það eru engir smáfjármunir og það er merkilegt að það skuli ekki hreinlega vera stefna núverandi ríkisstjórnar að ákveðið hlutfall af þeim tekjum sem ferðaþjónustan skapar renni beint í uppbyggingu innviða samfélagsins, hvort sem það heitir vegakerfi, hafnir eða uppbygging ferðamannastaða almennt, friðlýsing svæða og annað því um líkt. Eins og kannanir hafa sýnt fram á koma ferðamenn auðvitað fyrst og fremst vegna náttúru landsins og til að njóta íslenskrar náttúru, ekki bara á einhverjum afmörkuðum svæðum sem eru dæmigerðir ferðamannastaðir, heldur sækjast þeir eftir því að skoða fjölbreytta náttúru úti um allt land. Og til þess þurfa samgöngur að vera greiðar.

Ég skil bara ekki að ekki skuli vera meiri metnaður en þetta þegar yfir 300 milljarða tekjur eru af ferðaþjónustunni, eða gjaldeyrissköpun af hennar hálfu. Settar eru hundrað milljónir hér og hundrað milljónir þar af vanefnum í verkefni í stað þess að taka myndarlega á þessum málum. Ég trúi hægri stjórn til þess að svelta velferðarkerfið og til að reyna að einkavæða allt sem hreyfist, en að hægri stjórn hafi ekki meiri metnað fyrir samgöngum — ég átta mig ekki á hvað er þar í gangi, hvaða stíflur eru innan ríkisstjórnarinnar sem valda því að ekki má fara í alvöruframkvæmdir og alvöruviðhald vega sem drabbast hafa niður í fjölmörg ár.

Það er ekki gott að heyra að strax sé farið að tala um það nú að hausti að skera þurfi niður hjá Vegagerðinni varðandi snjómokstur í vetur. Veturinn byrjar með hvelli á öllu landinu, en þau skilaboð hafa komið til Vegagerðarinnar að þar eigi menn að hagræða og spara í því sem snýr að snjómokstri. Það er eins og menn haldi að þeir geti stjórnað náttúruöflunum líka. En sem betur fer er þessi ríkisstjórn nú ekki til þess bær þegar hún ræður varla við að stjórna þessu litla landi með rétt rúmlega 300 þús. íbúa. Svona lítur nú þessi málaflokkur út.

Svo hefur verið komið inn á barnabæturnar. Þar er ekki mikill metnaður á ferðinni, að verið sé að skerða barnabætur við tekjur upp á 200 þús. kr. og að þær 600 millj. kr. sem ætlaðar voru til verkefnisins séu felldar niður. Það eru kaldar kveðjur til barnafólks í landinu. Sama má segja um vaxtabæturnar, þar eiga 200 millj. kr. að ganga til baka vegna þess að heildarfasteignamat heimila hækkaði um 8% og þar með á nettóeign heimila að hafa aukist sem því nemur. Ekki hefur fasteignamatið hækkað alls staðar með þessum hætti á landinu og það er spurning hvernig þau heimili koma út sem ekki búa við þetta háa eða hækkaða fasteignamat. En það er líka hárrétt sem fram kemur í nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar að eignastaða heimilanna batnar ekkert þótt fasteignamatið hækki eða greiðslustaðan batnar ekki. Það er nú hinn kaldi veruleiki.

Síðan er samanburðartaflan þyngri en tárum taki, að sjá hvernig núverandi ríkisstjórn hendir frá sér tekjupóstum eins og veiðigjaldi sem hefur hríðlækkað undanfarin ár og ekki einu sinni í þágu þeirra sem þurfa vissulega á því að halda, þ.e. hinna minni útgerða sem ekki voru á sama stað og stærstu útgerðir landsins sem græða á tá og fingri og sýna hagnað upp á tugi milljarða. Þær stærri greiða sér í arð 13 milljarða af þeim hagnaði. Nei, veiðigjaldalækkunin fór flatt yfir allt, stóru og stærstu fyrirtækin fengu hana líka og nú er eingöngu verið að taka um 5–8 milljarða í veiðigjöld samanborið við 13–20 milljarða sem stóru útgerðirnar greiða sjálfum sér í arð.

Það sýnir stefnu þessarar ríkisstjórnar í hnotskurn. Auðvitað hefði verið hægt að nýta þessar tekjur, auðlegðarskatt, orkuskatt og veiðigjöld sem fyrri ríkisstjórn lagði á og hugsaði sér að setja það fé í mikla uppbyggingu. Fjárfestingaráætlun sýndi fram á að við værum í uppbyggingarferli strax í framhaldi af því að staða ríkissjóðs batnaði. En þá voru haldnar kosningar og hægri stjórn tók við. (VigH: Og vinstri stjórnin tapaði.)Og vinstri stjórnin — fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá. Þannig var nú það.

En við skulum vona að það snúist nú við. Í himnaríki, þar sem ég vona að við öll endum nú einhvern tímann, verða hinir fyrstu síðastir og hinir síðustu fyrstir. Við skulum bara vona það og ég trúi því að vinstri stjórn komist hér aftur til valda eftir rúmt ár. Þá getum við greitt úr þeirri óreiðu sem verið hefur í ríkisfjármálum, þar sem vanáætlað hefur verið í marga málaflokka og illa (Forseti hringir.) staðið að innviðauppbyggingu í samfélaginu. (Gripið fram í.)