145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:26]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vissulega þarf uppbygging innviða að vera í takt við fjölgun ferðamanna. Ég held að við séum komin á þann stað að við megum alveg vera svolítið óróleg vegna þess að þetta er ekki að ganga. Við vorum kannski ekki alveg tilbúin fyrir svona hraða fjölgun ferðamanna til landsins, sem hefur birst í frekar handahófskenndum ákvörðunum í svo mörgum málaflokkum. Fjármagn hefur ekki fylgt fjölguninni vegna þess að það vantar í raun og veru stefnumörkun á svo mörgum sviðum sem skarast síðan og ganga saman eins og hv. þingmaður nefndi. Það eru ekki bara samgöngurnar heldur svo margt annað, eins og löggæsla og heilbrigðiskerfið í landinu. Allt þarf þetta að haldast í hendur og í raun velferðarkerfið líka. Þetta er allt samspil.

Við höfum horft upp á hvernig ráðherra ferðamála hefur hrakist fram og til baka með hugmyndir sínar um innviðauppbyggingu og hvernig eigi að afla fjár til þess að mæta þörfinni sem er fyrir hendi. Menn eru ekki enn þá — núna eru að verða komin þrjú ár frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum — komnir niður á eitt eða neitt sem segir hvernig þeir sjái fyrir sér að mörkuð verði ferðamálastefna til framtíðar fyrir landið, að hún verði sjálfbær og fjármögnuð sjálfbært líka. Þetta liggur ekki enn fyrir eftir nánast þriggja ára stjórnarsetu. Hvað er í gangi?