145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:33]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það má vissulega taka undir það að ríkisstjórnin hefur verið verklaus á mörgum sviðum, en hún hefur þó ekki verið verklaus í því að lækka veiðigjöld og afnema auðlegðarskatt. Ríkisstjórnin hefur ekki verið verklaus í því að auka á ójöfnuð í þjóðfélaginu. Hún getur hrósað sér af því að hér er meiri ójöfnuður núna en var þegar vinstri stjórnin lét af störfum, enda hafði hún beitt tækjum sínum og látið reyna á í efnahagslegri baráttu við að verja hag hinna lægstlaunuðu og þeirra sem verr voru settir en látið þá sem gátu bera þyngri byrðar, en ríkisstjórnin hefur aldeilis verið dugleg við að létta þeim byrðarnar og auka ójöfnuðinn í þjóðfélaginu. Þeir sem eru ánægðir með það eru náttúrlega ánægðir með það. Ég er ekki ánægð með það.

Í framhaldi af því eru til dæmis í fjáraukalögum að koma aftur inn í ríkissjóð, ef ég má orða það þannig, vaxtabætur og barnabætur sem Alþingi samþykkti í fjárlögum í fyrra, virðulegi forseti, að ættu að koma til þeirra sem þess þörfnuðust. Er það ekki skylda ríkisstjórnarinnar þegar hún sér fram á að einhverra hluta vegna hafi þessar bætur verið of hátt áætlaðar að breyta viðmiðunarmörkunum þannig að þeir peningar sem Alþingi hefur ákveðið að eigi að renna til þeirra fjölskyldna sem verst hafa (Forseti hringir.) það fari úr ríkissjóði til þessara fjölskyldna en ekki aftur í vasann?