145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vissulega ætti það ekki að vera þannig að menn nýttu tækifærið og kipptu þessu aftur inn í ríkissjóð. Það er ekki eins og þörfin sé ekki fyrir hendi, eins og hv. þingmaður kom ágætlega inn á. Það þekkja það allir að það er auðvitað mjög erfitt fyrir ungt fólk að fóta sig í dag, ungar barnafjölskyldur, að koma sér þaki yfir höfuðið og sjá sér og sínum farborða. Það er mjög erfitt. Þær upphæðir sem þarna eru á ferðinni eru um 600 milljónir varðandi barnabæturnar sem ríkissjóður ætlar að taka til sín aftur þar sem þær voru ofáætlaðar og 200 milljónir vegna vaxtabóta. Auðvitað hefði ríkið átt að breyta viðmiðunarreglum þar sem búið var að samþykkja þessar upphæðir á Alþingi og að nýta þær þessum einstaklingum til hagsbóta frekar en að kippa þeim aftur til baka.

Þetta hefði aldrei verið liðið af hálfu vinstri stjórnarinnar, það er alveg á hreinu. Það er eins og hægri stjórnin komist upp með að koma svona fram við þá sem minna mega sín og geta kannski ekki varið sig með sama hætti og ýmsir sem eru með mikla hagsmunagæslu fyrir sig inni á þingi eins og stórútgerðirnar varðandi lækkun veiðigjalda. Það er ekki alveg sama vigtin í ungu barnafólki sem er að koma sér þaki yfir höfuðið og stórútgerðaraðlinum á Íslandi. Þetta unga fólk er líka kjósendur. Atkvæði þess skiptir alveg jafn miklu máli þegar upp er staðið. Ég ætla að vona að þetta unga fólk sé að fylgjast (Forseti hringir.) með þessari umræðu og viti hver ber hag þess fyrir brjósti.