145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:38]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er lenska. Önnur lenska hjá þessari ríkisstjórn sem við sjáum í fjáraukalögunum nú og við sáum líka fyrir ári síðan, sem lýsir sér í sannkölluðu verkleysi, eru afrek hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra Ragnheiðar Elínar Árnadóttur í sambandi við ferðamannastaðina. Nú held ég að þingmaðurinn geti kannski leiðrétt mig ef það er ekki rétt hjá mér, en er þetta ekki í annað skipti sem fjáraukalögin eru notuð til þess að setja fjármuni í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða vegna þess að ráðherrann hafði ekki dug í sér og setti fram svo vitlausar tillögur að það var ekki unnt að samþykkja þær og þess vegna voru ekki fjármunir þarna? Samt sem áður lagði minni hlutinn ríka áherslu á það við fjárlagagerðina að það þyrfti að áætla fé til þessa málaflokks vegna þess að það væri sýnt að þessar vitlausu tillögur mundu aldrei ná fram að ganga og það mundi vanta þarna peninga.

Er þetta ekki óþolandi? Getur þingmaðurinn verið sammála mér um að það sé óþolandi vinnulag við gerð fjárlaga að setja ekki inn þau gjöld upp á hundruð milljóna sem allt heilvita fólk veit að mun þurfa og geyma þau ekki fyrir fjáraukalög? Er það ekki samkvæmt fjáraukalögum að þar sé bara eitthvað ófyrirséð? Þessir hlutir voru aldrei ófyrirséðir. (Forseti hringir.) Þarf ekki ríkisstjórnin að hysja upp um sig í fjárlagagerðinni almennt?